Erlent

Sýrlandsforseti sáttur við kjör Donalds Trump

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Assad Sýrlandsforseti fagnar því ef Trump ætlar að berjast gegn Íslamska ríkinu. Hér heilsar hann upp á sýrlenska hermenn.
Assad Sýrlandsforseti fagnar því ef Trump ætlar að berjast gegn Íslamska ríkinu. Hér heilsar hann upp á sýrlenska hermenn. Fréttablaðið/EPA
Sýrland Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, er jákvæður í garð Donalds Trump, nýkjörins forseta Bandaríkjanna.

Assad segir Trump verða bandamann ef hann heldur til streitu kosningaloforði sínu um að Bandaríkjamenn eigi að einskorða afskipti sín af Sýrlandi við baráttuna gegn Íslamska ríkinu.

Bandarísk stjórnvöld hafa lýst andstöðu við bæði ríkisstjórn Assads og Íslamska ríkið í Sýrlandi. Samkvæmt frásögn BBC mun Trump hins vegar hafa sagt í kosningabaráttu sinni að það væri „brjálæði“ að lýsa yfir andstöðu við báða hópana og tók fram að ef Bandaríkin háðu stríð gegn Sýrlendingum gæti það leitt til átaka við Rússa.

Assad segir að yfirlýsing Trumps lofi góðu en hann hefði efasemdir um hvort Bandaríkjaþing myndi leyfa honum að halda þessari stefnu til streitu.

„Við vitum ekki hvað hann ætlar að gera, en ef hann ætlar að berjast gegn hryðjuverkamönnunum þá munum við verða bandamenn hans í því, eins og við erum bandamenn Rússa, Írana og margra annarra þjóða,“ segir Assad.

Í samtali við Wall Street Journal á föstudaginn sagði Trump að hann vildi hætta stuðningi Bandaríkjanna við hófsama uppreisnarmenn í stríði þeirra við Assad af því að „við höfum ekki hugmynd um hvaða fólk þetta er“.

Tímaritið Newsweek segir að stefna Trumps muni gleðja Rússa, sem styðja Assad í baráttu hans gegn hófsömum uppreisnarmönnum og Íslamska ríkinu. Pútín hefur nú þegar hringt í Trump til að óska honum til hamingju með sigurinn í kosningunum og til þess að ræða kosti þess að styrkja tengsl Bandaríkjanna og Rússa.

Viðtalið við Assad birtist á sama tíma og bardagar hefjast að nýju í Aleppo eftir þriggja vikna vopnahlé. Vopnahléið var gert til þess að leyfa íbúum og uppreisnarmönnum að yfirgefa stríðssvæðið. Það tók enda á þriðjudag þegar orrustuþotur byrjuðu að sprengja borgina að nýju.

Elizabeth Trudeau, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, gagnrýndi árásirnar og afskipti rússneskra stjórnvalda af landinu. „Rússar eru aftur byrjaðir að styðja ríkisstjórn Assads í stríði hennar gegn sýrlenskum almenningi,“ segir hún.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×