Innlent

Nýjustu foreldar landsins fá hærri greiðslur en foreldrar gærdagsins

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sex börn fæddust í gær en fjölskyldur þeirra falla ekki undir nýju reglurnar.
Sex börn fæddust í gær en fjölskyldur þeirra falla ekki undir nýju reglurnar. Vísir/Getty
Ný reglugerð um hækkun hámarksgreiðslna til foreldra í fæðingarorlofi tók gildi á miðnætti. Fimm börn hafa fæðst á Landspítalanum það sem af er degi og njóta fjölskyldur þeirra góðs af breytingunum. Sex börn fæddust í gær en fjölskyldur þeirra falla ekki undir nýju reglurnar. Ljósmóðir á spítalanum segir að bæði gærdagurinn og morguninn hafi gengið eðlilega fyrir sig á spítalanum.

Ákveðið var á fundi ríkisstjórnarinnar þann sjöunda október síðastliðinn að fæðingarorlofsgreiðslur yrðu hækkaðar í 500 þúsund krónur frá og með 15. október, að tillögu Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra. Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hafa hingað til verið 370 þúsund krónur, og því er um að ræða umtalsverða hækkun. Fæðingarstyrkur og lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka einnig frá og með deginum í dag.

Fyrsta barnið sem fæðist inn í þessi nýju réttindi kom í heiminn um eitt á miðnætti í nótt. Rétt fyrir hádegi í dag höfðu fimm börn fæðst á Landspítalanum það sem af er degi. Sex börn fæddust á spítalanum í gær, það síðasta um kvöldmatarleytið, en fjölskyldur þeirra fá ekki að njóta þessara nýju réttinda.

Kveðið hefur verið á um þessar hækkanir með reglugerð, en ekki með lögum frá Alþingi eins og venjan er, en nýbakaðir foreldrar sem geta ekki nýtt sér breytingarnar hafa gagnrýnt tímasetninguna talsvert þar sem þær gilda aðeins um foreldra barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur í dag eða síðar.

Fréttablaðið greindi til að mynda frá því í vikunni að dæmi væru um að konur væru að fresta gangsetningu og keisaraskurðum fram yfir helgi til þess að börn þeirra falli undir nýju reglugerðina.Foreldrar sem eignuðust barn fyrir daginn í dag gætu orðið af hundruðum þúsunda króna og því töluverðir fjármunir í húfi fyrir marga.

Elín Gunnarsdóttir, vaktstjóri og ljósmóðir á Landspítalanum, sagði í samtali við fréttastofu að gærdagurinn og morguninn hefðu gengið eðlilega fyrir sig og starfsfólk á fæðingardeild hefði ekki orðið vart við að verðandi mæður væru að krossleggja fætur til að stjórna fæðingartímanum og falla þannig inn í nýju reglugjöfina.


Tengdar fréttir

Ellilífeyrir og fæðingarorlof mun hækka

Á fundi ríkisstjórnarinnar í gær var samþykkt að leggja til breytingar á hámarksgreiðslum til foreldra í fæðingarorlofi og hækkun á lífeyrisgreiðslum til eldri borgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×