Innlent

Fimm landsliðsmenn Kúbu í fangelsi fyrir að nauðga finnskri konu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá réttarhöldunum í Finnlandi undir lok ágúst.
Frá réttarhöldunum í Finnlandi undir lok ágúst. Vísir/AFP
Fimm landsliðsmenn Kúbu í blaki voru í morgun dæmdir í fangelsi fyrir að nauðga finnskri konu í Finnlandi í sumar. Fjórir þeirra, þar á meðal landsliðsfyrirliðinn, fengu fimm ára dóm en sá fimmti fékk þriggja og hálfs árs dóm. BBC greinir frá.

Mennirnir voru handteknir á hóteli í Tampere þann 2. júlí eftir að kona tilkynnti að henni hefði verið nauðgað á hótelinu. Átta voru upphaflega teknir höndum en tveimur var fljótlega sleppt. Sá þriðji var svo látinn laus í ágúst.

Kúbverska landsliðið hafði verið að spila á æfingamóti í aðdraganda Ólympíuleikanna í Ríó. Nauðgunin átti sér stað á hótelinu þar sem liðið dvaldi. Mennirnir neituðu sök og sögðu að konan hefði gefið samþykki sitt.

Rolando Cepeda Abreu, Alfonso Gavilan, Ricardo Calvo Manzano og Osamny Uriarte Mestre fengu fimm ára dóm en þeir eru á aldrinum 19 til 27 ára. Luis Sosa Sierra sem er 21 árs fékk styttri dóm. Þá þurfa þeir að greiða konunni jafnvirði þriggja milljóna króna í bætur.

Þrátt fyrir forföllin tefldi Kúba fram liði á leikunum í Ríó. Liðið tapaði öllum fimm leikjum sínum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×