Innlent

Mikill meirihluti studdi samkomulagið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Elín Björg Jónsdóttir undirritaði samkomulagið fyrir hönd BSRB. Fréttablaðið/GVA
Elín Björg Jónsdóttir undirritaði samkomulagið fyrir hönd BSRB. Fréttablaðið/GVA
„Þarna var það einfaldlega þannig að það voru fjögur félög sem voru því mótfallin að við gerðum þetta og það var farið í atkvæðagreiðslu. Niðurstaðan varð að 22 aðildarfélög bandalagsins voru samþykk því að við myndum undirrita þetta skjal,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, um þá ákvörðun forystumanna BSRB að undirrita samkomulag við ríki og sveitarfélög um nýtt lífeyriskerfi. Með þessa niður­stöðu hafi henni einfaldlega borið að undirrita samkomulagið.

Samningarnir voru undirritaðir í fyrradag. Breytingarnar fela í sér að allt launafólk í landinu mun njóta sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Í framhaldinu ætla ríki og sveitarfélög að leiðrétta launamun milli opinbera vinnumarkaðarins og hins almenna.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að fjögur aðildarfélög innan BSRB hefðu bókað mótmæli gegn fyrirhuguðum breytingum á lífeyrissjóðakerfinu á formannafundi sem haldinn var í Reykjanesbæ í byrjun september. Þetta voru forsvarsmenn Landssambands lögreglumanna, Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sjúkraliðafélagsins og Tollvarðafélagsins. Elín Björg segir það afar leitt að ekki skyldu öll félögin innan BSRB hafa verið sammála í málinu því reynt hafi verið að ná samstöðu um það.

En það er ekki bara deilt um nýja samkomulagið innan BSRB. Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem samkomulaginu var mótmælt. Þar er vinnubrögðum við gerð samkomulagsins líka mótmælt. „Um er að ræða breytingar sem eru gerðar án nokkurs samráðs við FÍH,“ segir í yfirlýsingunni. Telur stjórnin hjúkrunarfræðinga vera óbundna af samkomulaginu. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×