Innlent

Jökull í Kaleo um EA Games: „Ekki eins mikill peningur í boði og margir halda“

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjögur íslensk bönd hafa átt lög í tölvuleikjum EA Games, Mínus, Of Monsters and Men, Jakobínarína og Kaleo, en Jökull í Kaleo segir kynningargildið vega þyngra en peninga.
Fjögur íslensk bönd hafa átt lög í tölvuleikjum EA Games, Mínus, Of Monsters and Men, Jakobínarína og Kaleo, en Jökull í Kaleo segir kynningargildið vega þyngra en peninga. Vísir
Það er ekki eins mikill peningur í boði fyrir að eiga lag í tölvuleik frá tölvuleikjaframleiðandanum EA Games og margir gætu haldið. Þetta segir Jökull Júlíusson, söngvari og gítarleikari Kaleo, í samtali við Vísi en Kaleo er eitt af fjórum íslenskum böndum sem hafa átt lag í leik frá EA Games. Jökull segir kynningargildi vega þyngra en peninga þegar kemur að því að heimila notkun á tónlist sinni í leikjunum.

Árið 2004 fékk EA Games leyfi fyrir notkun á laginu Long Face með Mínus í Evrópukeppnisleiknum UEFA Euro 2004.

Árið 2008 var lagið I´m a Villain með Jakobínarína notaði í FIFA 2009.

Í fyrra voru svo lögin Crystals með Of Monsters and Men og Way Down We Go með Kaleo notuð í FIFA 2016.

Kaleo tilkynnti síðan 4. ágúst síðastliðinn á vef sínum að lag þeirra Glass House verði að finna í Madden 2017 frá EA Games, en í Madden er spilaður amerískur fótbolti.

Í ljósi umræðunnar um ákvörðun KSÍ að taka ekki 15.000 dollara boði EA Games fyrir að fá að nota íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í FIFA 2017 lá Vísi forvitni á að vita hvaða forsendur liggja að baki ákvörðunar íslenskra hljómsveita um að leyfa EA Games að nota tónlist sína í leiki fyrirtækisins.

Jökull Júlíusson segir að í bæði skiptin sem hljómsveitin hefur samþykkt notkun tónlistar hjá EA Sports þá hafi kynningin sem fylgir því að vera með lag í leikjum fyrirtækisins verið henni efst í huga.

„Í bæði skiptin sem við höfum samþykkt notkun tónlistar hjá EA games (Madden í ár og FIFA í fyrra) þá hefur markaðssetning og kynning verið aðallega í huga enda er ekki eins mikill peningur í boði og margir halda,“ segir Jökull.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sagði við fjölmiðla í gær að EA Games hefðu boðið Knattspyrnusamband Íslands 15.000 dollara fyrir að fá að nota íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í FIFA 2017.

Aðspurður hvort að svipaðar upphæðir fáist fyrir að leyfa notkun á tónlist sinni í leikjum frá EA Games segist Jökull ekki geta svarað því, útgefandi þeirra, Warner Brothers og Atlantic Records, sjái alfarið um þau mál, en líkt og hann sagði áður, þá eru ekki um háar fjárhæðir að ræða. 

Uppfært 22. september klukkan 10:26

Í allri þessari upptalningu gleymdist okkar allra besti Jónsi sem var með lag í FIFA 11 sem má heyra hér fyrir neðan:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.