Innlent

Þjónusta við fötluð börn skorin niður um helming vegna manneklu á frístundaheimilum

Þórhildur Þorkelsdóttir. skrifar
Frístundaþjónusta við fötluð börn í borginni hefur verið skert um fimmtíu prósent vegna manneklu á frístundaheimilum. Fjörutíu manns vantar til starfa á frístundaheimilið Guluhlíð, og á meðan ekki tekst að manna þau stöðugildi verða börnin send heim með tilheyrandi raski á rútínu þeirra og atvinnu foreldra.

Forstöðumaður Guluhlíðar rekur ástandið til mikils uppgangs og atvinnutækifæra í samfélaginu. Laun við umönnunarstörf séu einfaldlega of lág til að hægt sé að sjá fyrir endann á ástandinu.

„Þetta er í fyrsta skipti síðan ég tók við sem það hefur verið svona erfitt að manna. Þrátt fyrir að vera að reyna að þjónusta börnin eins og við getum þá erum við samt að keyra á undirmönnun,“ segir Margrét Halldórsdóttir forstöðumaður Guluhlíðar. 

Fyrir nokkrum vikum þurfti því að upplýsa foreldra um að þjónustan við börnin yrði skert verulega, eða um helming.

„Börnin vilja langflest vera fimm daga vikunnar í Guluhlíð en við getum núna boðið þeim upp á tvo til þrjá daga. Við höfum engin önnur úrræði, engin önnur ráð og eðlilega eru foreldrarnir í mjög erfiðri stöðu.“

Sjá má umfjöllun um málið í heild sinni í spilaranum að ofan.

VÍSIR/SKJÁSKOT
Laun fyrir fullt starf á frístundaheimili eru um 300 þúsund krónur. Á Guluhlíð eru flestir í fimmtíu prósent vinnu, margir samhliða háskólanámi.

„Það er náttúrlega mikið framboð atvinnu í þjóðfélaginu og þá eru það ummönnunarstörf sem sitja á hakanum. Það eru ekki bara við sem erum í vondum málum, það eru fleiri frístundaheimili og leikskólar. Við þurfum bara svo mikið af fólki til að manna staðinn. Ef að við gætum borgað betri laun og fasta yfirvinnu myndi okkur örugglega ganga betur að fá fólk. Þetta eru ekki nægilega góð laun fyrir þá vinnu sem hér er unnin.“

Margrét segist ekki sjá fyrir endann á manneklunni.

„Ekki eins og staðan er í dag nei. Það er allavega mjög langt í það. Miðað við hvernig staðan er og hvernig við erum að fá inn fólk þá sjáum við fram á að þetta verði mjög langt haust. Mjög langt. Því miður.“ 

Nánari umfjöllun um málið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×