Innlent

Broddstafir til vandræða í samræmdu könnunarprófi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Um fjögur þúsund nemendur þreyttu rafrænt samræmt könnunarpróf í morgun.
Um fjögur þúsund nemendur þreyttu rafrænt samræmt könnunarpróf í morgun. VÍSIR/VILHELM
Broddstafir voru til vandræða í samræmdu könnunarprófi sem lagt var fyrir sjöundu bekkinga í morgun. Þetta er í fyrsta skipti í íslensku skólahaldi sem prófið er lagt fyrir á rafrænu formi en um var að ræða íslenskupróf sem um fjögur þúsund börn þreyttu.

„Það komu upp einhverjir smáhnökrar sem við leystum jafnóðum. Það eina sem var ekki í lagi að það var ekki hægt að nota broddstafi á nokkrum vélum,“ segir Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri á matssviði hjá Menntamálastofnun.

Gylfi segir vandamálið ekki hafa komið upp hjá öllum, en að nú sé unnið að því að finna lausn á því. „Við höfum látið vita af þessu og munum taka tillit til þessa. Það er svekkjandi að þetta hafi komið upp en þetta var ekki til staðar þegar við prufukeyrðum prófið. Við höldum að ástæðan sé veflásin, en erum að vinna að lausn á þessu,“ segir hann.

Aðspurður telur hann vandamálið ekki hafa haft áhrif á nemendur. „Þetta eru krakkar í sjöunda bekk sem meira og minna allir eiga snjalltæki og þekkja þetta allt saman mjög vel.“

Prófið verður næst lagt fyrir börn í fjórða bekk, en foreldrar hafa lýst yfir áhyggjum af því að börnunum hafi ekki verið kennd fingrasetning með markvissum hætti. Gylfi segir það sama gilda um börn í fjórða bekk og sjöunda, að þeir þekki allir vel inn á hið hefðbundna tölvuumhverfi.

„Það stendur einfaldlega í íslenskri aðalnámskrá að það eigi að kenna börnum fingrasetningu og að í lok fjórða bekkjar eigi þau að vera búin að ná góðum tökum á henni. Skólarnir hafa haft nægan tíma til að undirbúa þetta. Ég held ég geti líka leyft mér að fullyrða að yfirgnæfandi meirihluti íslenskra barna þekkir þetta tölvuumhverfi. Það eru ekki börn börn í dag sem þekkja það ekki að slá inn bókstafi.“

Gylfi segir að prófið hafi að öðru leyti gengið afar vel. Grunnskólar hafi staðið sig sérstaklega vel að undirbúningi þess og segir að stórt skref hafi verið stígið í átt að nútímaskólahaldi. „Þegar við erum búin að innleiða þessi próf að fullu eftir þrjú ár erum við komin í hóp þeirra ríkja sem eru komin hvað lengst í því að leggja þessi próf fyrir.“


Tengdar fréttir

Börn þurfa að læra fingrasetningu í snatri

Samræmd próf í íslensku fyrir fjórða bekk grunnskólanna verða tekin á tölvur þrátt fyrir að fingrasetning hafi ekki verið kennd markvisst. Prófið veldur foreldrum og kennurum áhyggjum og hafa skólar þurft að fá lánaðar tölvur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×