Innlent

Fyrstu samræmdu könnunarprófin á rafrænu formi lögð fyrir á morgun

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Menntamálastofnun segist viðbúin því að eitthvað fari úrskeiðis.
Menntamálastofnun segist viðbúin því að eitthvað fari úrskeiðis. Vísir/Vilhelm
Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði verða lögð fyrir á rafrænu formi í fyrsta sinn í íslensku skólastarfi á morgun. Nemendur í 7. bekk þreyta prófin dagana 22. og  23. september og 29. og 30. september verða þau lögð fyrir fjórðu bekkinga.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól í desember síðastliðnum Menntamálastofnun að innleiða rafræna fyrirlögn á samræmdum könnunarprófum í grunnskólum. Í tilkynningu frá Menntamálastofnun segir að rafræn próf gefi kost á að meta betur hæfni nemenda en hefðbundið fyrirkomulag og að í framtíðinni verði unnt að aðlaga próffyrirlögn að færni nemenda.

Þá segir að undirbúningsvinna hafi staðið yfir frá því í janúar. Hins vegar sé alltaf möguleiki á að eitthvað fari úrskeiðis þegar ráðist sé í svo umfangsmiklar breytingar, en foreldrar hafa lýst yfir áhyggjum í ljósi þess að fjórðu bekkingum hefur ekki verið kennd fingrasetning með markvissum hætti.

„Rafræn próf reyna nokkuð á tölvukunnáttu nemenda og viðbúið er að bregðast þurfi við ýmsum vandamálum á meðan á fyrirlögn stendur. Mun starfsfólk Menntamálastofnunar leggja sig fram um að vera í góðu sambandi við skóla og aðstoða við að leysa úr öllum þeim málum sem upp kunna að koma. Verða nemendur látnir njóta alls vafa þar sem þess er nokkur kostur ef vandamál koma upp,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Börn þurfa að læra fingrasetningu í snatri

Samræmd próf í íslensku fyrir fjórða bekk grunnskólanna verða tekin á tölvur þrátt fyrir að fingrasetning hafi ekki verið kennd markvisst. Prófið veldur foreldrum og kennurum áhyggjum og hafa skólar þurft að fá lánaðar tölvur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×