Innlent

Hundruð fá styrk vegna skólabyrjunar

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Útgjöldin geta verið mikil þótt verslað sé á skiptibókamarkaði. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Útgjöldin geta verið mikil þótt verslað sé á skiptibókamarkaði. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM Vísir/vilhelm
Rúmlega 200 grunnskólabörn fengu í fyrra styrk frá Hjálparstarfi kirkjunnar til að kaupa námsgögn. Fjöldinn sem sótt hefur um aðstoð í ár er svipaður, að sögn Vilborgar Oddsdóttur félagsráðgjafa. Rúmlega 50 framhaldsskólanemar fengu aðstoð við að kaupa námsgögn.

Vilborg Oddsdóttir
„Við veittum 55 ungmennum úr átta sveitarfélögum og 15 skólum styrk úr Framtíðarsjóði 16-21 árs. Við settum þak á aðstoðina sem við veitum vegna kaupa á bókum. Annars myndum við tæma sjóðinn. Við höfum verið að borga fyrir þau 30 þúsund krónur í efnisgjöld á fyrstu önn og 20 til 25 þúsund á annarri önn. Auk þess fengu nokkur börn fartölvur. Við greiðum auk þess skólagjöld að fullu,“ greinir hún frá.

Vilborg segir aðeins færri framhaldsskólanema hafa sótt um aðstoð nú en í fyrra. Mögulega vegna þess að krakkarnir hafi átt auðveldara með að fá vinnu.

Aðstoð vegna kaupa grunnskólabarna á efnisgögnum nam í fyrra sjö til 10 þúsundum á einstakling. „Þau hafa einnig getað fengið skólatöskur sem við eigum, bæði gamlar og nýjar. Svo hafa þau fengið fullt af stílabókum sem við höfum gefið með.“

Efnishyggjan fer minnkandi, að mati Vilborgar. „Það er meira um það að kennarar segi krökkunum að byrja í stílabókunum þar sem endað var árinu áður.“

Hjálparstarf kirkunnar veitir einnig fjölskyldum aðstoð vegna tómstunda barna, fatakaupa og ferða í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×