Innlent

Konur að jafnaði með 14 prósent lægri heildarlaun en karlar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Það eru vissulega vonbrigði að þrátt fyrir harða og áralanga baráttu félagsins fyrir jöfnum launum karla og kvenna skuli munurinn enn vera svona mikill,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR.
„Það eru vissulega vonbrigði að þrátt fyrir harða og áralanga baráttu félagsins fyrir jöfnum launum karla og kvenna skuli munurinn enn vera svona mikill,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR.
Konur eru að jafnaði með 14,2 prósent lægri heildarlaun en karlar og kynbundinn launamunur, það er launamunur sem ekki er hægt að skýra með neinu öðru en kynferði er 10 prósent, samkvæmt árlegri launakönnun VR sem birt var í dag.

Þar kemur fram að launamunur kynjanna hafi haldist óbreyttur á milli ára, en munurinn var 9,9 prósent í síðustu könnun.

Þegar litið er til grunnlauna eru konur með 12,2 prósent lægri laun en karlar og þegar búið er að taka tillit til annarra þátta sem hafa áhrif á launin situr eftir 9,9 prósent kynbundinn munur á grunnlaunum. Þá er umtalsverður munur á kynjum hvað varðar hlunnindi á borð við símakostnað, líkamsræktarstyrki eða farsíma. Þannig fá 87 prósent karla slík hlunnindi en 74 prósent kvenna. 

„Ef konur innan VR fengju sömu laun og karlar í félaginu jafngildir  núverandi launamunur því að konur séu „launalausar“ í 36 daga í ár,“ segir í tilkynningu frá VR.

„Það eru vissulega vonbrigði að þrátt fyrir harða og áralanga baráttu félagsins fyrir jöfnum launum karla og kvenna skuli munurinn enn vera svona mikill,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR í tilkynningunni.

Samkvæmt könnuninni voru heildarlaun félagsmanna VR að meðaltali 635 þúsund krónur á mánuði í apríl 2016 og höfðu hækkað um 15,8 prósent frá því í janúar í fyrra. Grunnlaun voru 589 þúsund krónur að meðaltali. Þá segir að þeir sem fóru á síðasta ári í launaviðtal hjá atvinnurekanda séu að jafnaði með fimm prósent hærri laun en þeir sem fóru ekki í viðtal.

Þegar félagsmenn voru spurðir hvort þeir hefðu orðið fyrir fordómum í vinnu kom í ljós að einn af hverjum fjórum hefur orðið fyrir fordómum í vinnu einhvern tímann á ævinni og einn af hverjum tuttugu einhvern tímann á síðustu sex mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×