Innlent

Reykjavíkurborg í lóðadeilu við húseigendur í Álakvíslinni

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Væn sneið er horfin af görðum íbúanna í göngustíginn við Álakvísl 45-51.
Væn sneið er horfin af görðum íbúanna í göngustíginn við Álakvísl 45-51. vísir/vilhelm
„Það var aldrei vandamál hjá okkur að þeir færu í gegn með lagnirnar en við erum ósátt við að fá ekki garðana okkar til baka,“ segir Ólöf Kristínardóttir í Álakvísl 49.

Orkuveitan er að endurnýja aðveituæðar að hitaveitugeymum í Öskjuhlíð og fékk í apríl á þessu ári framkvæmdaleyfi fyrir lögn á 890 metra kafla gegnum Ártúnsholtið og fyrir nýjum göngustíg sem verður 2,5 metrar á breidd og breiðari en gamli stígurinn. Hins vegar var fallið frá lagningu hjólastígs vegna harðra mótmæla íbúa. Flutningsæðarnar er sagðar sjá um 40 prósentum höfuðborgarsvæðisins fyrir heitu vatni.

Eigendur í þremur af fjórum íbúðum í raðhúsalengju við Ála­kvísl 45-51 kærðu framkvæmdaleyfið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í kærunni segir að þeir eigi í raun lóð allt að gamla hitaveitustokknum. Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu frá 1988, sem ráðherraskipuð stjórn Verkamannabústaða í Reykjavík hafi útbúið og framkvæmdastjóri undirritað, fylgi íbúðum þeirra „einkaafnotaréttur á lóðarspildu fjögurra metra breiðri, eða að stíg, jafn langri íbúðinni“.

Nýju lagnirnar eru engin smásmíði enda anna þær 40 prósentum af heitavatnsþörf höfuðborgarsvæðisins.vísir/vilhelm
Þrátt fyrir það voru íbúarnir skikkaðir til að fjarlægja grindverk og annað sem þeir höfðu komið fyrir út fyrir þau lóðamörk sem Reykjavíkurborg telur vera þau réttu. Borgin segir að samkvæmt lóðarleigusamningi frá 1982 séu engar heimildir fyrir eigendur húsanna til að hafa einkaafnotarétt á lóðarspildunni að stígnum.

„Sú eignaskiptayfirlýsing sem kærendur byggi á sé hvorki í samræmi við lóðarleigusamning né mæliblað,“ segir um rök borgarinnar í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar. Borgin sé ekki aðili að yfirlýsingunni „og hafi þessi yfirtaka lóðareiganda yfir borgarlandi enga þýðingu“.

Úrskurðarnefndin hafnaði kröfu íbúanna um að ógilda framkvæmdaleyfið en tók ekki afstöðu til lóðadeilunnar.

Ólöf Kristínardóttir segir hins vegar að fyrir liggi niðurstaða í sambærilegu máli frá 2003 vegna annarrar raðhúsalengju við hitaveitu­stokkinn í Álakvísl sem íbúarnir hafi unnið. Vísast endi nýja málið fyrir dómstólum.

„Það eru allir reiðir hérna í hverfinu yfir þessu,“ segir Ólöf. Ekki sé nóg með að fólk missi hluta af görðum sínum heldur megi búast við aukinni umferð um stækkaðan göngustíg.

„Þeir samþykktu að draga til baka að hafa þetta sem hjólastíg og að þetta verði bara göngustígur en ég veit ekki um neinn göngustíg í höfuðborginni sem má ekki hjóla á. Þetta fer í gegn um leiksvæði fyrir börnin. Menn setja ekki hjólastíg inn á miðjan leikvöll þar sem eru pínulítil börn.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×