Innlent

Dómarar höfðu betur

Heiðar Lind Hansson skrifar
Hæstiréttur að störfum.
Hæstiréttur að störfum. vísir/stefán
Innanríkisráðuneytið hafnaði tillögu nefndar um dómarastörf þess efnis að heimild yrði sett í dómstólalög um að haldin yrði opinber skrá um eignarhluti dómara í félögum og atvinnufyrirtækjum. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins. Nefndin sendi tillöguna frá sér í apríl 2014 ásamt tillögu um að haldin yrði opinber skrá um aukastörf dómara. Sú tillaga fór hins vegar inn í frumvarp að nýju dómstólalögum sem Alþingi samþykkti í júní.

Í svari ráðuneytisins segir að þegar tekin sé afstaða til þess hvaða upplýsingar um eignarhluti eru birtar í skrá vegist á sjónarmið um friðhelgi einkalífsins og almannahagsmuni. "Hins vegar þótti ekki rétt, að undangengnu sama hagsmunamati, að opinberlega yrðu birtar upplýsingar um eignarhald á hlut dómara í félagi eða atvinnufyrirtæki. Er þá sérstaklega litið til þess að starfsemi slíkra félaga og fyrirtækja er afar mismunandi og kann að vera þess eðlis að litlar eða engar líkur eru á að til hagsmunaárekstra stofnist. Þá getur eignarhlutur dómara að sami skapi verið mjög óverulegur," segir í svarinu.

Í svari Hjördísar Hákonardóttur, formanns nefndar um dómarastörf, segir að nefndin hafi skilað inn tillögum vorið 2014. Tilefnið var aldur reglnanna, en þær hafa verið óbreyttar frá 2000 þegar þær voru fyrst settar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×