Nýr samgöngustígur yfir Arnarnesháls í Garðabæ verður formlega opnaður við enda Hegraness við Arnarneslæk á morgun.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, mun þar afhjúpa skilti sem merkir stíginn sem rauð lykilleið á höfuðborgarsvæðinu, en honum til aðstoðar verða nemendur úr Sjálandsskóla í Garðabæ sem koma hjólandi eftir stígnum frá skólanum.
Í tilkynningu frá Garðabæ kemur fram að lykilleiðir séu samgöngustígar sem lögð sé áhersla á að halda færum allt árið og tengi saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Lykilleiðirnar njóti forgangs í snjómokstri og hálkueyðingu þegar þess sé þörf.
„Stígurinn yfir Arnarnesháls, sem var samstarfsverkefni Garðabæjar og Vegagerðarinnar, er hluti af rauðu lykilleiðinni sem nær allt frá miðbæ Hafnarfjarðar að Borgartúni í Reykjavík. Sá hluti rauðu lykilleiðarinnar sem er í Garðabæ, er fyrsta lykilleiðin sem er merkt á höfuðborgarsvæðinu en alls verða leiðirnar fimm, gul, rauð, græn, blá og fjólublá.
Litamerking lykilleiða er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og var það unnið í samráði við Vegagerðina.
Opnun stígsins er hluti af dagskrá samgönguviku 16.-22. september,“ segir í tilkynningunni.
Opna nýjan göngu- og hjólastíg yfir Arnarnesháls
