Erlent

Móðir Teresa tekin í dýrlingatölu á sunnudaginn

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Móðir Teresa hefur sætt talsverðri gagnrýni undanfarin ár.
Móðir Teresa hefur sætt talsverðri gagnrýni undanfarin ár. Vísir
Móðir Teresa verður tekin í dýrlingatölu nú á sunnudaginn. Athöfnin mun fara fram í Vatíkaninu en áætlað er að hálf milljón manna verði viðstödd messuna.

Móðir Teresa er heimsþekkt fyrir starf sitt í fátækrahverfum Kalkútta á Indlandi en hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1979. Hún lést árið 1997, 87 ára að aldri.

Í frétt BBC kemur fram að til þess að Kaþólska kirkjan taki einstakling í dýrlingatölu þurfi að teljast sannað að viðkomandi hafi stuðlað að tveimur kraftaverkum eftir andlát. Vatíkanið hefur nú lýst því yfir að tvö kraftaverk hafi verið staðfest eftir andlát Móður Teresu. Annars vegar á kona á Indlandi að hafa læknast af æxli í kviðarholi árið 2002 og hins vegar brasilískur karl af heilaæxli árið 2008. Bæði höfðu þau beðið til Móður Teresu í von um lækningu. Frans páfi staðfesti síðara kraftaverkið í fyrra og gerði Móður Teresu þannig kleift að vera tekin í dýrlingatölu.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, lýsti því yfir í útvarpsviðtali á dögunum að indverska þjóðin væri stolt vegna viðburðarins enda hefði Móðir Teresa helgað líf sitt fátæku fólki. Modi mun senda hundrað manna hóp frá Indlandi til Vatíkansins með Sushma Swaraj, utanríkisráðherra Indlands, í broddi fylkingar.

Ekki eru þó allir Indverjar sáttir með þessa ákvörðun Modis og hefur undirskriftasöfnun verið sett á fót með því markmiði að fá Swaraj til þess að sniðganga athöfnina.

Að mati gagnrýnendanna er tvískinnungur fólginn í því að utanríkisráðherra lands sem leggur áherslu á vísindalega hugsun skuli vera viðstaddur athöfn sem byggir á trúarlegum kraftaverkum.

Þess má jafnframt geta að Móðir Teresa sjálf hefur sætt margvíslegri gagnrýni í gegnum árin. Sú gagnrýni varðar helst meinta vanrækslu og vöntun á hreinlæti við þjónustu á fátækum sjúklingum og blessun fólks á dánarbeði óháð því hvaða trúarbrögðum það aðhylltist. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×