Innlent

Sjúkratryggingar Íslands semja um rekstur tveggja nýrra heilsugæslustöðva

Anton Egilsson skrifar
Við undirritun samningsins.
Við undirritun samningsins. Vísir/Sjúkratryggingar
Sjúkratryggingar Íslands hafa samið um rekstur tveggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar útboðs Ríkiskaupa. Útboð á rekstri þriggja nýrra heilsugæslustöðva var auglýst í lok apríl s.l., á grundvelli ákvörðunar Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra. Þrjú tilboð bárust, tvö voru samþykkt en þriðja tilboðinu var hafnað. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sjúkratryggingum Íslands í dag.

Heilsugæslustöðvarnar tvær verða starfræktar að Bíldshöfða 9 í Reykjavík og að Urðarhvarfi 8 í Kópavogi. Áætlað er að stöðvarnar verði opnaðar í febrúar 2017.

Í forsvari fyrir stöðina að Bíldshöfða eru læknarnir Hildur Björg Ingólfsdóttir, Gunnlaugur Sigurjónsson, Þórarinn Ingólfsson, Þórarinn Þorbergsson og Þórdís Anna Oddsdóttir. Fyrir stöðina að Urðarhvarfi eru í forsvari læknarnir Sturla B. Johnsen, Teitur Guðmundsson og Torbjörn Andersen.

“Með tveimur nýjum heilsugæslustöðvum er verið að styrkja stoðir heilsugæslunnar og grundvöll hennar til að þjóna hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Samhliða opnun þeirra er jafnframt ætlunin að fjármögnun allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, bæði nýrra og eldri, byggi á sömu forsendum óháð rekstrarformi þeirra. Með þessum breytingum og frelsi sjúkratryggðra til að skrá sig á þá stöð sem þeir kjósa er ætlunin að heilsugæslustöðvarnar verði i samkeppni um að veita skilvirka og góða þjónustu” segir í fréttatilkynningu frá Sjúkratryggingum Íslands.


Tengdar fréttir

Ganga til samninga um heilsugæslur

Ríkiskaup ganga til samningum um rekstur tveggja einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu . Tilboð í þriðju stöðina var hafnað. Aðeins eitt tilboð barst í hverja stöð. Lágu framlagi frá ríkinu er kennt um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×