Innlent

Færri fá fjárhagsaðstoð

Sæunn Gísladóttir skrifar
Kópavogur
Kópavogur Vísir
Heimilum sem fá greidda fjárhagsaðstoð fækkar annað árið í röð samkvæmt tölum Hagstofunnar. Árið 2015 fengu 6.996 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fækkað um 753, eða um 9,7 prósent, frá árinu áður.

Af þeim heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2015 voru sem fyrr einstæðir barnlausir karlar fjölmennasti hópurinn, eða 45,4 prósent heimila. Hlutfall einstæðra barnlausa feðra hækkaði um 0,6 prósent á milli ára.

Rannveig María
Rannveig María Þorsteinsdóttir, deildarstjóri ráðgjafa- og íbúðadeildar hjá velferðarsviði Kópavogsbæjar, telur að það að mennirnir séu ekki með börn á framfæri og því ekki neinar aukagreiðslur spili þar inn í. „Slíkar greiðslur eru ekki skattskyldar þannig að þær auka verulega ráðstöfunartekjur. Ég held að þetta endurspegli erfiðleikana sem fólk hefur þegar það er um að ræða einar heimilistekjur. Auðvitað kostar að vera með börn en það er kostnaður við húsnæði sem er dýrastur og hann er oft sá sami hvort sem menn eru með börn eða ekki,“ segir Rannveig María.

Rannveig María segir einnig einstæða menn oft einangraðri en konurnar. „Menn hafa ekki þetta stuðningsnet sem fylgir konum.“

Frá 2007 til 2013 fjölgaði heimilum árlega sem þáðu fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, að jafnaði um 627 ári. Breyting í fjölda fjárhagsaðstoðarþega hefur haldist í hendur við þróun atvinnuleysis.

Af þeim heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2015 voru einstæðar konur með börn næst fjölmennasti hópurinn, 30,2 prósent heimila, og hækkaði hlutfallið um rúmlega fimm prósent milli ára. Árið 2015 voru 38 prósent viðtakenda fjárhagsaðstoðar atvinnulausir og þar af fimm sjöttu án bótaréttar, alls 2.172 einstaklingar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×