Innlent

Fram á nótt að slökkva eld í sorphaugum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Erfiðlega gekk slökkva eld sem kom upp á urðunarstað Sorpurðunar Vesturlands í Fíflholtum á Mýrum í gærmorgun.
Erfiðlega gekk slökkva eld sem kom upp á urðunarstað Sorpurðunar Vesturlands í Fíflholtum á Mýrum í gærmorgun. Vísir/Vilhelm
Töluverður eldur kom upp á urðunarstað Sorpurðunar Vesturlands í Fíflholtum á Mýrum í gærmorgun. Varð hans vart klukkan 7.45 en ekki tókst að slökkva síðustu glæðurnar fyrr en um klukkan fimm í nótt.

Þorsteinn Eyjólfsson, staðarhaldari á Fíflholtum, segir í samtali við Vísi að um sjálfsíkveikju hafi verið að ræða sem sé ekki óalgengt á urðunarstöðum þegar nær að hitna í haugunum áður en að urðun á sér stað.

Vel hafi gengið í fyrstu að kæfa eldinn en það sé yfirleitt gert með því að kæfa eldinn með rusli. Svo óheppilega vildi þó til að troðarinn sem notaður var til verksins bilaði áður en að tókst að ná tökum á eldinum. Magnaðist eldurinn eftir það og því þurfti að kalla til vörubíla til þess að aka möl yfir hauginn. Ekki tókst að slökkva eldinn fyrr en seint í nótt.

Haugarnir verða vaktaðir næstu sólarhringa til þess að ganga úr skugga um að eldurinn blossi ekki upp á nýi. Eldurinn í gær er einn sá mesti á urðunarstaðnum frá því að starfsemin hófst. Mikinn reyk lagði frá urðunarstaðnum og kvörtuðu íbúar í ofanverðum Borgarfirði yfir ólykt sem lagðist yfir sveitirnar í kring.

Sorpurðun Vesturlands er í eigu sveitarfélaganna á Vesturlandi og er þar urðað almennt sorp og annað rusl frá Vesturlandi og Vestfjörðum.

Töluverðan reyk lagði frá haugunum.Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×