Innlent

Mörgþúsunda munur á kostnaði grunnskólanemenda

Una Sighvatsdóttir skrifar
Flestir grunnskólar taka saman innkaupalista þar sem fram kemur hvað nemendur þurfa að kaupa af ritföngum fyrir skólaárið. Skólarnir gera hinsvegar mjög mismunandi kröfur um það hvaða gögn börnum ber að útvega fyrir skólaárið.

Munurinn á kostnaði milli getur hlaupið á tugum þúsunda milli grunnskóla, og þessi kostnaður fellur allur á foreldrana. Barnaheill vilja breyta lögum þannig að nauðsynleg námsgögn teljist hluti af gjaldfrjálsri menntun barna. 

Sumir borga 900 krónur en aðrir 12 þúsund

Sem dæmi má nefna að á síðasta skólaári var kostnaður foreldris með barn í fyrsta bekk lægstur 900 krónur í einum skóla, á meðan foreldrar barna í öðrum skóla fengu í hendur innkaupalista upp á 12 þúsund krónur. Sömu sögu má segja um önnur aldursstig. Sumir nemendur í 10. bekk þurftu sem dæmi að kaupa inn vörur fyrir 22 þúsund krónur á meðan aðrir jafnaldrar sluppu með 3000 krónur.

Þótt grunnmenntun eigi að heita ókeypis getur skólinn því reynst barnafjölskyldum dýr, að sögn Ernu Reynisdóttur framkvæmdastjóri Barnaheilla. „Við getum ímyndað okkur það ef þú ert með nokkur börn í skóla þá er þetta farið að hlaupa í tugum þúsunda í einhverjum tilfellum þannig að án efa er þetta þungur baggi fyrir fjölskyldur og sérstaklega barnmargar fjölskyldur.“ 

Mikill munur er á því milli grunnskóla hversu dýr innkaupalistinn er sem foreldrar fá í hendur á haustin.
Ísafjörður borgar nauðsynleg námsgögn fyrir grunnskólanema

Á síðasta skólaári var meðalkostnaður við kaup á námsgögnum á bilinu 7-8 þúsund krónur á hvert barn. Miðað við um 44.000 nemendur á grunnskólaaldri áætlar Samband íslenskra sveitarfélaga því að kostnaður fyrir sveitarfélögin, við að taka yfir þennan kostnað af foreldrum, gæti numið allt að 350 milljónum króna.

Eitt sveitarfélag, Ísafjörður, tók það skref þegar fyrir þremur árum að hætta að senda út innkaupalista en skilgreina námsgögnin sem hluta af gjaldfrjálsri menntun. Er það fyrirkomulag haft á í öllum fjórum grunnskólum bæjarins og hefur gefist vel. Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði, segir að reynsla síðustu þriggja ára hjá þeim sýni að þetta fyrirkomulag bæði jafni aðstöðu nemenda óháð efnahag en hafi einnig orðið til þess að námsgögnin nýtist betur, þar sem kennarar safni þeim saman í lok vetrar og geymi til næsta skólaárs.

Stuðlar að betri nýtingu og hagkvæmni

Barnaheill hvetja fleiri sveitarfélög til að fylgja fordæmi Ísafjarðar og benda einmitt á þessi hagkvæmnisrök. 

„Án efa er hægt að minnka töluvert kostnað við námsgögn með magninnkaupum og með því að samnýta líka. Til dæmis trélitasafnið er hægt að nýta fyrir 2-3 nemendur, það þurfa ekki allir að eiga sett. Þannig að við viljum líka skoða þetta, út frá betir nýtni,“ segir Erna.

Áskorun til stjórnvalda um að breyta grunnskólalögum

Og Barnaheill ganga lengra og vilja að stjórnvöld breyti lögum um grunnskóla. Þar segir nú að óheimilt sé að krefja nemendur eða foreldra um greiðslu fyrir námsgögn, að undanskildum þeim sem eru til persónulegra nota. „Við viljum líta svo á að ritföng, stílabækur og annað sem foreldrar eru beðnir að kaupa fyrir börnin sín séu hluti af námsgögnum og þar af leiðandi viljum við ekki að foreldar séu rukkaðir fyrir þetta," segir Erna.

Undirskriftarsöfnun til stuðnings þessari áskorun er nú farin af stað á vef Barnaheilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×