Innlent

Neitað um aðgang að bréfi um meint einelti sonar þeirra

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Vísir/Getty
Foreldrar barns, sem sakað var um einelti af samnemendum sínum, fá ekki aðgang að nafnlausu bréfi foreldra meintra þolenda. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál en með því staðfesti nefndin niðurstöðu grunnskólans sem um ræðir.

Í umræddu bréfi voru frásagnir fjögurra barna af samskiptum við son málshefjanda. Foreldrar hins meinta geranda kröfðust þess að fá aðgang að bréfinu á þeim grundvelli að þar væri að finna upplýsingar sem vörðuðu hann. Þau höfðu verið upplýst um bréfið, sem var ritað í nóvember 2014, en ekki fengið aðgang að því.

Í umsögn skólans kemur fram að miklir erfiðleikar hafi verið í bekknum sem um ræðir. Bréfið er nafnlaust og óundirritað. Í kjölfar þess að foreldrar hins meinta geranda óskuðu eftir aðgangi að því gengust tilteknir foreldrar við því að hafa ritað bréfið. Þá kom fram afstaða þeirra þess efnis að veita ekki aðgang að bréfinu.

Í bréfinu eru frásagnir fjögurra barna af samskiptum þeirra við hinn meinta geranda auk lýsinga á upplifun þeirra og ótta gagnvart honum.

„Þrátt fyrir að um sé að ræða nafnlaust óundirritað bréf liggur fyrir hvaða foreldrar rituðu það. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur því að auðvelt sé að para saman lýsingu hvers barns fyrir sig og bréfritara og þar með komast að því hvaða barn á í hlut hverju sinni,“ segir meðal annars í niðurstöðunni.

Það var því niðurstaða nefndarinnar að bréfið innihéldi nógu ríka einstaklingshagsmuni barna til að heimilt sé að takmarka aðgang foreldra hins meinta geranda að bréfinu. Því var þeim synjað um aðgang að því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×