Innlent

Göngufólk villtist við Heklu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hekla.
Hekla. Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út laust fyrir miðnætti í gærkvöldi eftir að hjálparbeiðni barst frá pari sem var villt í nágrenni Heklu.

Fólkið hafði verið í um tólf tíma á gangi og vissi ekki hvar það var statt né hvar þau yfirgáfu bíl sinn sem þau höfðu leitað að án árangurs í þrjár klukkustundir. Þau voru orðin köld, þreytt og hrakin.

Parið náði að vera í símasambandi við björgunarmiðstöð sem sendi svokölluð Rescue Me-skilaboð í síma þeirra sem sendi svo til baka skilaboð um nákvæma staðsetningu símans. Þetta gerði leitina að fólki mun markvissari og auðveldari að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg.

Fólkið var komið til byggða einum og hálfum tíma eftir að hjálparbeiðnin barst, auk þess sem björgunarsveitir höfðu fundið bíl þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×