Sport

Eygló Ósk í undanúrslit í 200 metra baksundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir er komin áfram.
Eygló Ósk Gústafsdóttir er komin áfram. Vísir/Anton
Eygló Ósk Gústafsdóttir tryggði sér sæti í undanúrslitum 200 metra baksunds kvenna á Ólympíuleikunum með því að ná tólfta besta tímanum í undanrásum.

Eygló Ósk synti á 2:09.62 mínútum en Íslandsmet hennar frá því á HM í Kazan fyrir ári síðan er 2:09,04 mínútur. Eygló Ósk var því ekki langt frá sínu besta.

Anton Brink, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á sundinu í dag og náði þessum flottum myndum af Eygló Ósk hér fyrir ofan.

Eygló Ósk keppti í síðasta riðlinum og varð fjórða. Eygló Ósk var í forystu fyrstu 150 metrana í sínum riðli en missti síðan þrjár fram úr sér á síðustu 50 metrunum.

Þetta er önnur greinin á leikunum þar sem Eygló Ósk kemst í undanúrslit og jafnar hún þar með afrek Hrafnhildar Lúthersdóttur frá því í gær. Þær hafa báðar komist tvisvar í undanúrslit á þessum leikum sem er sögulegur árangur.

Fyrir þessa Ólympíuleika hafði engin íslensk sundkona komist í undanúrslit í sögu Ólympíuleikanna.

Eygló Ósk varð í fjórtánda sæti í 100 metra baksundi en fyrstu tvö sundin hennar voru á sunnudaginn var.

Katinka Hosszú frá Ungverjalandi hefur þegar unnið þrjú gull á leikunum og hún náði bestum tíma í undanrásum 200 metra baksundsins.

Eygló Ósk Gústafsdóttir syndir aftur í undanúrslitum í kvöld skömmum fyrir ellefu að staðartíma eða kl. tvö að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir

Eygló Ósk hás og hóstandi eftir sundið

Eygló Ósk Gústafsdóttir þurfti að hrista af sér smá veikindi þegar hún tryggði sér sæti í undanúrslitum í annað skiptið á Ólympíuleikunum í Ríó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×