Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2: Rætt við forsætisráðherra um kosningarnar

Ríkissjóður mun verða fyrir þungu höggi árið 2030 þegar sjóður B-deildar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins tæmist og ríkissjóður þarf að fjármagna sjóðinn með 13 milljarða króna árlegum greiðslum vegna bakábyrgðar. Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis lýsir þungum áhyggjum af þessu í umsögn um áætlun í ríkisfjármálum. Við fjöllum nánar um þetta í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Við fjöllum líka um nýjar íbúðir Búseta en leiguverð á þessum íbúðum hefur verið harðlega gagnrýnt en það nemur allt að fjögur hundruð þúsund krónum á mánuði. Búseti fékk lóð úthlutað hjá Reykjavíkurborg árið 2014 á besta stað í borginni í þeim tilgangi að fjölga valkostum fyrir tekjuminni einstaklinga. Engin trygging er fyrir því að íbúðir sem þarna muni rísa verði á eitthvað lægra verði en nýjar íbúðir Búseta en borgarstjóri segist vonast til þess að það verði raunin.

Í fréttatímanum fjöllum við líka um breytingar á búvörusamningum. Þeir verða styttir í þrjú ár í stað tíu og þá munu sérostar og upprunamerktir ostar sem eru fluttir inn fá sérstakt tollnúmer. Þetta mun auðvelda innflutning á þessum ostum og fjölga valkostum neytenda. Þingmenn Bjartrar framtíðar eru ósáttir við breytingarnar og segja þær ganga allt of skammt. Rétt sé að vísa frá búvörusamningum og semja upp á nýtt.

Þá verðum við með viðtal við forsætisráðherra í beinni útsendingu um þingstörfin framundan en hann fundaði síðdegis í dag með formönnum allra stjórnmálaflokka. Meðal þess sem var rætt var dagsetning vegna þingkosninganna í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×