Innlent

Bjargaði lífi manns sem hætti að anda á Vegamótum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Hrólfur Ólafsson dyravörður.
Hrólfur Ólafsson dyravörður. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR
„Ég var í sjokki eftir þetta en ánægður á sama tíma,“ segir Hrólfur Ólafsson, yfirdyravörður á skemmtistaðnum Vegamótum, en hann bjargaði lífi 23 ára manns sem fór í hjartastopp á staðnum síðustu helgi.

Maðurinn var að skemmta sér ásamt vinum sínum á vegamótum þegar hann hætti skyndilega að anda inni á klósetti staðarins. Vinir mannsins létu starfsmenn strax vita. „Vaktstjórinn kallar á mig og segir að það þurfi mann strax inn á klósett. Þar sé ég strákinn liggjandi á gólfinu. Ég byrja á því að láta rýma klósettið,“ segir Hrólfur og bætir við að vaktstjórinn hafi séð um að halda fólki utan við klósettið á meðan aðrir starfsmenn hringdu í sjúkrabíl.

„Hann varð alveg blár í framann og ég finn að það er enginn púls. Þá velti ég honum yfir á bakið og sé að bringan er ekki að lyftast og ég fann engann hjartslátt. Ég byrja þá strax að hnoða hann,“ segir Hrólfur en hann hefur farið á fjögur skyndihjálparnámskeið, eitt í starfi sínu sem yfirdyravörður, annað þegar hann tók meirapróf og tvö á vegum Mjölnis en hann er yfirþjálfari þar. Hrólfur segir námskeiðin greinilega borga sig. Hann hnoðaði manninn þrjátíu sinnum í um tíu skipti.

„Þetta er fyrsta sinn sem ég hnoða mann en ekki dúkku. Það var öðruvísi. Tíminn var svo skrítinn og mér leið eins og hann væri endalaus,“ segir hann og lýsir því hvernig maðurinn hafi orðið blárri og blárri með hverri mínútu. „Hann var orðin alveg stífur á einum tímapunkti og varla hreyfanlegur og þá hélt ég að hann væri alveg farinn. Ég hugsaði samt ég verð að halda áfram og ákvað að blása,“ segir Hrólfur en hann segir skiptar skoðanir vera á því hvort það eigi bara að hnoða eða einnig að blása við skyndihjálp.

„Ég heyri aldrei það sama á námskeiðunum. Fyrst var talað um blástur og hnoð og svo bara hnoð. Mér fannst eins og öndunarvegurinn hafi opnast eftir að ég byrjaði að blása og þá fór ég að hnoða aftur. Þá fann ég að hjartað byrja að slá.“

Lögreglan kom á staðinn um 10 mínútum eftir að Hrólfur var kallaður inn á klósettið. Lögreglumaður tók við af honum en þá komst maðurinn fljótlega til lífs á ný. Hann var fluttur á slysadeild í kjölfarið.

„Strákurinn sendi mér skilaboð stuttu síðar og þakkaði mér fyrir að hafa bjargað lífi sínu. Hann sagðist hafa það mjög gott fyrir utan það að vera rifbeinsbrotin eftir mig,“ segir Hrólfur og hlær.

Maðurinn segir að hann verði Hrólfi ævinlega þakklátur. Hann er sprækur í dag og útskýrir að hjarta sitt hafi byrjað að slá of hratt og í kjölfarið hafi atburðarásin farið af stað. „Ég man ekki neitt en mér var sagt að Hrólfur hafi bjargað lífi mínu,“ segir hann.

Eigandi Vegamóta, Óli Már Ólafson, segir atvikið hafa verið áfall fyrir alla starfsmenn. Hann segist feginn því að allir yfirmenn á staðnum fari á skyndihjálparnámskeið. 

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×