Innlent

Stormviðvörun á hálendinu og þungbúið veður í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vindaspá Veðurstofunnar á miðnætti í kvöld.
Vindaspá Veðurstofunnar á miðnætti í kvöld. Mynd/Veðurstofa Íslands
Veðurstofan varar við hvassviðri eða stormi, 15 til 23 metrum á sekúndu, á hálendinu í kvöld. Þá má búast við snörpum vindhviðum við fjöll suðvestanlands í kvöld og á morgun er spáð talsverðri rigningu á Suður-og Vesturlandi, og jafnvel mikilli rigningu suðaustanlands.

Eftir miklar rigningar á morgun dregur þó aðeins úr vætu annað kvöld. Á þriðjudag er spáð rólegra veðri og gæti mögulega sést til sólar fyrir norðan en „eftir það er útlit fyrir þungbúið veður og vætu með köflum en þó áfram fremur hlýtt í veðri,“ eins og segir á í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu:

Suðaustan 8-13 metrar á sekúndu og 13-18 við suðvesturströndina í kvöld, en hvassviðri eða stormur á hálendinu. Hægari vindur fyrir norðan og austan. Súld eða rigning, en rofar til norðaustanlands síðdegis. Suðaustan 8-15 og víða talsverð rigning á morgun, jafnvel mikil úrkoma á Suðausturlandi. Sunnan 8-13 metrar á sekúndu og dregur úr vætu annað kvöld. Hiti 11 til 20 stig, hlýjast norðaustan til.

Á þriðjudag:

Suðaustan 8-13 metrar á sekúndu og skúrir, en léttskýjað á Norðaustur og Austurlandi. Hiti 12 til 22 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á miðvikudag:

Suðaustan 8-13 metrar á sekúndu, en hægari vestan til. Talsverð rigning suðaustanlands, annars dálítil rigning með köflum. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á fimmtudag:

Sunnan 3-8 og stöku skúrir, en þurrt og bjart veður á Norður- og Austurlandi. Hiti breytist lítið.

Á föstudag og laugardag:

Norðlæg eða breytileg átt, úrkomulítið og milt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×