Innlent

Settur í myglað hótelherbergi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Herbergi á Fosshótel Húsavík
Herbergi á Fosshótel Húsavík
„Þetta er eitt af þessum slysum og hann hefur verið settur í herbergið fyrir mistök,“ segir Óskar Finnsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íslandshótela en um helgina var rútubílstjóri settur í herbergi með myglu á Fosshótel í Húsavík.

Þetta segir bílstjórinn sjálfur sem kaus að koma ekki fram undir nafni.

Að sögn Óskars hefur umrætt herbergi lítið sem ekkert verið notað síðustu mánuði. Á döfinni sé að gera það upp en illa hafi gengið að fá iðnaðarmenn í júlí.

Herbergið hafi verið í notkun í vetur af iðnaðarmönnum sem unnu á hótelinu.

„Þetta herbergi er langversta herbergið á hótelinu og á ekki að vera í notkun. Okkur þykir það miður að hann hafi fengið þetta herbergi. Þetta hafa verið mistök.“

Óskar ætlar að hafa samband við bílstjórann í dag og biðja hann afsökunar. „Okkur þykir voðalega vænt um rútubílstjóranna. Það eru þeir sem færa okkur gestina.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×