Sport

Sjáðu ótrúlegt heimsmetshlaup Van Niekerk

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Suður-Afríkumaðurinn Wayde van Niekerk átti óvæntasta afrek Ólympíuleikanna til þessa er hann sló 17 ára gamalt heimsmet Michael Johnson í 400 metra hlaupi.

Þessi 24 ára gamli drengur hljóp metrana 400 á 43,03 sekúndum. Gamla metið var 43,18 sekúndur.

Þetta ótrúlega hlaup kom mörgum í opna skjöldu. Van Niekerk var á áttundu braut og ekkert of margir að gefa honum auga fyrir hlaupið. Hann hljóp þó eins og vindurinn og lokaspretturinn var eiginlega lyginni líkastur.

„Þetta var slátrun,“ sagði Johnson en hann var á vellinum og varð vitni að því er heimsmetið hans var slegið.

„Van Niekerk er svo ungur. Hann gæti hlaupið undir 43 sekúndum. Ég hélt að ég gæti gert það en náði því aldrei. Usain Bolt fer að hætta og þetta gæti orðið næsta stórstjarnan í íþróttinni.“

Van Niekerk fagnaði ekkert allt of mikið eftir hlaupið. Líklega var hann í losti.

„Mig hefur dreymt um þetta síðan ég var barn. Ég trúði því að þetta væri mögulegt. Ég vil þakka Michael Johnson fyrir að vera frábær fyrirmynd fyrir okkur alla. Ég lagði mig allan í þetta og þetta gekk upp,“ sagði Suður-Afríkumaðurinn.

Þetta sögulega hlaup má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir

Bætti sautján ára heimsmet Michael Johnson

Suður-Afríkumaðurinn Wayde van Niekerk tryggði sér í nótt sigur í 400 metra hlaupi karla á Ólympíuleikunum í Ríó en hann vann úrslitahlaupið með sannfærandi hætti og á nýju heimsmeti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×