Innlent

Strengur lagður yfir hjólreiðastíg við Flugvallarveg: „Þetta er náttúrulega stórhættulegt“

Birta Svavarsdóttir skrifar
Búið var að strengja spotta þvert yfir hjólreiðastíginn.
Búið var að strengja spotta þvert yfir hjólreiðastíginn. Atli Páll Hafsteinsson
Atli Páll Hafsteinsson var á ferð um fjölfarinn hjólreiðastíg við Flugvallarveg seinni partinn í dag þegar hann tók eftir spotta sem búið var að strengja þvert yfir stíginn. Í samtali við Vísi segir Atli að þetta hafi verið sterkur spotti, sennilega leifar af einhverjum framkvæmdum, sem búið var að negla niður í gangstéttina, leiða yfir stíginn og binda við ljósastaur hinum megin. Hafi efsti punktur spottans náð honum upp að brjóstkassa.

Hjólreiðastígurinn við Flugvallarveg.Atli Páll Hafsteinsson
Atli skrifaði um málið inn á Facebook-hópinn Samgönguhjólreiðar: „Efsti punktur á spottanum var í ca. hnakkhæð og nægilega sterkur til að ég næði ekki að slíta hann þrátt fyrir einbeittan vilja. Því er óhætt að áætla að illa hefði farið ef ég eða börnin sem komu hjólandi stuttu seinna hefðum ekki séð hann í tæka tíð.“

Kort af svæðinu þar sem strengurinn hafði verið lagður.Atli Páll Hafsteinsson
Atli segist ekki hafa orðið var við eitthvað þessu líkt áður, en kannast við að hafa heyrt um önnur tilfelli. „Maður vonar bara að þetta séu einhverjir krakkar í einhverjum fíflagangi. Þetta er náttúrulega stórhættulegt. Það er rosalega mikið hjólað þarna og mikil traffík. Svo er leikskóli nálægt og ég þekki fólk sem fer þarna um reglulega með börnin sín.“ segir Atli í samtali við blaðamann.

Atli gerði lögreglu viðvart, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem mál þessu líkt kemur upp.

Hér má sjá færslu Atla á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×