Innlent

Daníel Þór var lagður í einelti í tíu ár: Barátta á hverjum degi að mæta í skólann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Daníel Þór Marteinsson var lagður í einelti alla sína grunnskólagöngu eða meira og minna í tíu ár. Hann segir að eineltið hafi náð hápunkti á unglingsárunum, það er í 9. og 10. bekk en Daníel kom í útvarpsþáttinn Brennsluna á FM957 og ræddi reynslu sína.

Daníel gekk í Árbæjarskóla og segir að það hafi tekið sinn toll að mæta í skólann.

„Þetta var barátta á hverjum degi að mæta og barátta við sjálfan sig. Þetta var ekkert grín eða þetta var kannski saklaust grín fyrir aðra en mig,“ segir Daníel.

Hefur mikil áhrif á Daníel enn í dag

Hann telur að lítið hafi verið gert til að uppræta eineltið þó skólayfirvöld hafi reynt að bregðast við með því að skamma gerendurna, veita þeim tiltal og boða til fundar með foreldrum. Það skilaði hins vegar ekki miklu.

„Fólk var bara með brögð, sá við þessu og tók upp sama leik,“ segir Daníel.

 

Hann segir eineltið hafa haft mjög mikil áhrif á skólagöngu sína og mótað hann mjög mikið sem manneskju.

„Þetta hefur ennþá áhrif í dag og mótaði mig til dæmis mikið í samskiptum við annað fólki og svo álit mitt gagnvart fólki.“

„Ég hef reyndar mikið spur mig hvað er normið“

Aðspurður í hverju eineltið fólst segir Daníel að það hafi verið allt mögulegt. Það var gert grín að útliti hans og hann var uppnefndur svo eitthvað sé nefnt. Þá var Daníel í sérkennslu en að hans mati skiptir félagslegi þátturinn mikli máli til að koma í veg fyrir einelti. Hann hafi verið mikið einn og kannski ekki passað inn í normið.

„Ég hef reyndar mikið spurt mig hvað er normið,“ segir Daníel.

Hann hvetur þá sem líður illa og kvíða því að fara í skólann að opna sig og segja frá. Þá sé mikilvægt að foreldrar ræði við börnin sín um muninn á saklausu gríni og einelti. Þá verði fólk að vera vakandi fyrir því sem er í gangi í kringum það.

Lesa má nánar um upplifun Daníels af eineltinu á monroe.is og hlusta á viðtalið við Daníel í Brennslunni í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×