Innlent

Steytir á LÍN og búvörusamningum

Sveinn Arnarsson skrifar
Níu þingfundardagar eru eftir af þessu þingi þar til boða á til kosninga þann 29. október næstkomandi. Nú bíða rúm sjötíu mál eftir fyrstu umræðu í þinginu og rúm fimmtíu mál liggja inni í nefndum þingsins. Enn eru einnig veigamikil mál sem eiga eftir að koma til þings áður en því lýkur.

Aðilar innan ríkisstjórnarinnar hafa sagt það skipta miklu máli að stjórnarandstaðan þvælist ekki fyrir þingmálum í störfum þingsins ef hægt eigi að vera að ganga til kosninga í lok október. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lét hafa það eftir sér að það væri ekki sjálfgefið að kosið yrði 29. október ef stjórnarandstaðan myndi tefja öll mál. Ríkisstjórnin yrði að koma þeim málum í gegn sem lögð yrðu fram.

Í samræðum við þingmenn innan raða stjórnarandstöðunnar er hins vegar greinilegt að nokkur mál munu ekki fara í gegnum þingið óbreytt. Samhljómur er innan minnihlutans um að frumvarp menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna og búvörusamningar landbúnaðarráðherra muni verða erfið mál og andstaðan ætlar sér að spyrna fast við fótum og torvelda þessum málum brautargengi í þinginu.

Einnig eru þingmenn sem rætt var við í gær hræddir um að ný frumvörp dúkki upp frá ríkisstjórn á síðustu dögum þingsins sem þurfi kannski mikla yfirlegu til að vel megi vera.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, segir LÍN-frumvarpið þurfa mikla yfirlegu í nefndinni. „Mér sýnist enn fremur ekki vera sátt um það milli ríkisstjórnarflokkanna. Einnig eru búvörusamningarnir mjög umdeildir og það verður þrautin þyngri að vinna úr þeim á þeim stutta tíma sem eftir er,“ segir Bjarkey og bætir við að samgönguáætlun sé enn ekki komin til þings. 

„Við höfum ekki verið með gilda samgönguáætlun allt þetta kjörtímabil og það svo sem skiptir ekki máli þó við bíðum í þrjá mánuði í viðbót og tökum hana eftir kosningar. Við munum hins vegar ræða vel búvörusamninga og Lánasjóðinn.“

„Af þeim málum sem eru inni í þinginu er ekki ágreiningur um margt enda lítið af stórum málum,“ segir Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingar. „Það er í sjálfu sér rétt hjá Vigdísi Hauksdóttur að það væri hægt að ljúka störfum strax og ganga til kosninga. “

Fjöldi mála mun að öllum líkindum sofna í nefndum þingsins líkt og undanfarin ár. Það er hins vegar spurning hvað ríkisstjórnarflokkarnir munu leggja áherslu á. 

Líklegt er að búvörusamningar fari í gegnum þingið með breytingum. Samkvæmt spjalli við stjórnarmenn er ólíklegt að það sé full eining um Lánasjóðsfrumvarpið óbreytt og því þurfi að gera viðamiklar breytingar. Flestir eru sammála því að frumvarp Eyglóar Harðardóttur um breytingar á fæðingarorlofssjóði fari ekki í gegnum þingið. Frumvarpið er enn til umsagnar í ráðuneytinu. 

„Ágreiningsmálin eru augljóslega búvörusamningarnir og málefni Lánasjóðs stúdenta. Það eru allir sammála um að það er óeðlilegt að fráfarandi ríkisstjórn skuldbindi ríkið um háar fjárhæðir langt fram í tímann,“ segir Helgi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×