Innlent

Tíu ára í tal­stöðvar­sam­bandi hleypur með í tíunda hlaupi slökkvi­liðs­manna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Slökkviliðsmennirnir hlaupa með sérútbúnum hlaupastólum.
Slökkviliðsmennirnir hlaupa með sérútbúnum hlaupastólum. Vísir/Hanna
Meðlimir Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu hafa allt frá árinu 2006 boðið fötluðum upp á að hlaupa með í Reykjavíkurmaraþoninu í sérútbúnum hlaupastólum. Engin breyting er á því í ár en í fyrsta sinn mun tíu ára gamall blindur drengur vera með í för. Verður hann í talstöðvarsambandi svo hægt sé að lýsa fyrir honum hlaupaleiðinni.

„Það er kominn spenningur í okkur hér hjá slökkviliðinu og skjólstæðinga okkar strax að vori,“ segir Ágúst Guðmundsson sem heldur utan um hlaupið fyrir slökkviliðið. „Hann Pálmi Pálmason er til dæmis búinn að fara með okkur frá byrjun og er farinn að hringja í mig í apríl eða maí á hverju ári.“

Hlaupið er með fjóra einstaklinga í fjórum stólum og í ár fylgja 24 meðlimir slökkviliðsins með. Hlaupið er tíu kílómetra og skiptast menn á að stýra stólunum. Í ár mun blindur strákur, hinn tíu ára gamli Teddi, hlaupa með slökkviliðinu.

„Við ætlum að tengja hann við talstöð svo við getum betur spjallað við hann á meðan hlaupinu stendur. Við ætlum að lýsa fyrir honum hlaupaleiðinni og hvað fyrir augun ber svo að upplifun hans verði enn meiri,“ segir Ágúst.

Slökkviliðið hefur í gegnum tíðina safnað fyrir ýmis samtök en í ár er safnað fyrir SOS - Barnaþorpin en framlögin fara í stuðning við íþróttaiðkun barna sem hafa andlega og líkamlega fötlun.

Hægt er að heita á slökkviliðið með því að fara inn á síðu slökkviliðsins á Hlaupastyrkur.is. Reykjavíkurmaraþonið fer fram á morgun, laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×