Innlent

Kennurum án kennsluréttinda fjölgar enn

Atli Ísleifsson skrifar
Meðalaldur kennara í grunnskólum heldur áfram að hækka. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Meðalaldur kennara í grunnskólum heldur áfram að hækka. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Kennarar án kennsluréttinda voru 5,4 prósent starfsfólks við kennslu haustið 2015 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni.

Á árunum 1998 til 2008 var hlutfall starfsfólks við kennslu í grunnskólum landsins, sem var án kennsluréttinda, á bilinu 13 til 20 prósent. Eftir hrun 2008 lækkaði hlutfallið um allt land og fór lægst í 4,1 prósent haustið 2012.

„Síðan 2012 hefur kennurum án kennsluréttinda fjölgað ár frá ári og voru 5,4% haustið 2015. Þá var 261 starfsmaður við kennslu án kennsluréttinda og hafði fjölgað úr 216 haustið 2014,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Lægst í Reykjavík

Hlutfall kennara án kennsluréttinda var lægst á landinu í Reykjavík, þar sem 2,4 prósent kennara vou án kennsluréttinda, og á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur, 3,9 prósent. „Á tveimur landsvæðum var hlutfall kennara án réttinda hærra en 10%, á Vestfjörðum (16,9%) og á Suðurnesjum (14,5%). Á Vesturlandi og Norðurlandi vestra lækkaði hlutfall kennara án kennsluréttinda frá fyrra ári og hlutfallið var óbreytt á Austurlandi.“

Í frétt Hagstofunnar segir jafnframt að körlum fækki meðal starfsfólks við kennslu í grunnskólum, að meðalaldur kennara í grunnskólum haldi áfram að hækka og að nemendum í grunnskólum haldi áfram að fjölga og voru 43.760 haustið 2015.

Þá segir að nemendum sem skráðir voru með erlent tungumál að móðurmáli hafi fjölgað ár frá ári frá því að Hagstofan hóf að safna inn þeim upplýsingum. „Haustið 2015 höfðu 3.543 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 8,1%, sem er 0,6 prósentustigi meira en árið áður. Algengasta erlenda móðurmál nemenda var pólska (1.282 nemendur), þá filippseysk mál (336 nemendur) og enska (240 nemendur).“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×