Innlent

Í beinni: Kvöldfréttir Stöðvar 2

Frumvarp sem mun draga úr vægi verðtryggingar verður lagt fyrir ríkisstjórn í næstu viku. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. Nánar verður fjallað um málið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Í fréttatímanum verður einnig umfjöllun um stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins en fréttastofan kannaði hug allra þingmanna flokksins til þess hvort hann eigi að leiða Framsóknarflokkinn í kosningunum í haust. Landsstjórn Framsóknarflokksins kom saman í gær og var þar tekin ákvörðun um að haustfundur miðstjórnar flokksins færi fram í byrjun september. Miðstjórn flokksins mun ákveða hvort sérstakt landsþing verði haldið fyrir kosningar en forysta flokksins endurnýjar umboð sitt á landsþingi.

Í fréttatímanum verður einnig fjallað um tannþráð en Bandaríkjamenn hættu nýlega að mæla sérstaklega með notkun tannþráðar. Ekki hefur verið vísindalega sannað að tannþráður stuðli raunverulega að bættri tannheilsu. Engu að síður hefur notkun tannþráðar verið hluti af lýðheilsumeðmælum um allan heim í áratugi. Rætt verður við íslenska tannlækna um hvort áfram verði lögð áhersla á notkun tannþráðar í lýðheilsumeðmælum hér á landi.

Við fjöllum líka um nýja bensínstöð Costco og hvaða áhrif hún mun hafa til lækkunar á bensínverði og fjöllum um berjatínslu en berjavertíðin fer senn að hefjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×