Innlent

Ósannað hvort tannþráður geri gagn

Una Sighvatsdóttir skrifar
Allir hafa heyrt þá möntru að það sé ekki nóg að bursta tennurnar tvisvar í dag, heldur verði líka að nota tannþráð. Nú er hisnvegar komið í ljós að orsakasamhengið milli góðrar tannheilsu og þess að nota tannþráð er alls ekki óumdeilt

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum gefa á fimm ára fresti út lýðheilsuvísa, sem lögum samkvæmt verða að byggja á vísindalegum grunni, og hefur notkun tannþráðar verið tilgreind þar allt frá árinu 1979. Í nýjustu útgáfunni í ár er hinsvegar hvergi minnst á tannþráð og þegar AP fréttastofan grennslaðist fyrir um málið var skýringin sú að komið hefði í ljós að rannsóknum um gagnsemi tannþráðs væri stórlega ábótavant.

AP fréttastofan skoðaði í kjölfarið stærstu 25 rannsóknirnar sem gerðar hafa verið undanfarinn áratug en þar var yfirleitt borin saman annars vegar notkun á tannbursta eingöngu og hinsvegar samspil tannbursta og tannþráðs. Niðurstöðurnar voru þær að vísbendingar um gagnsemi tannþráðs byggðu á veikum grunni og í sumum tilfellum sé jafnvel hætta á hlutdrægni. Framleiðsla og sala á tannþræði veltir um 2 milljörðum dala á ári á heimsvísu, þar af um milljarði í Bandaríkjunum og hefur iðnaðurinn sjálfur greitt fyrir flestar rannsóknirnar þar í landi.

Sjá frétt Associated Press

 

 

Vilhelm Grétar Ólafsson lektor við tannlæknadeild segir óhætt að fullyrða um gagnsemi tannþráðar.RIGHT
Viðmiðunarhópar fengu skemmdir

Á Íslandi hefur um árabil verið mælt með notkun tannþráðar, en hér er meðal annars byggt á skandinavískum rannsóknum að sögn Vilhelms Grétars Ólafssonar, lektors í tannfyllingu og tannsjúkdómafræðum við Tannlæknadeild Háskóla Íslands

„Við höfum verulega góðar langtímarannsóknir frá Svíþjóð á 8. áratugnum. Þær voru unnar bæði á börnum og fullorðnum sem fengu reglubundna og góða hreinsun, meðal annars með tannþræði, í 4-6 ár og engin ný vandamál mynduðust. Hinsvegar voru viðmiðunarhópar sem fengu ekki þessa reglubundnu hreinsun og fengu allt að þrjár nýjar skemmdir á ári."

Vísindasiðanefnd myndi ekki samþykkja samanburðarrannsókn

Vilhelm játar þó að tannþráður hafi ekki verið einangraður einn og sér sem breyta og að slík rannsókn verði líklega aldrei gerð úr þessu. „Í dag væri erfitt að vinna svona rannsóknir af einhverju viti þar sem engin vísindasiðanefnd myndi samþykkja þær. Til dæmis þar sem maður bannar reglubundna venjulega hreinsun í ákveðnum hópum og notar bara tannþráð í hinum."

En þótt strangt til tekið geti reynst ómögulegt að sanna það eftir vísindalega viðmiðum telja tannlæknar notkun tannþráðar í raun heilbrigða skynsemi. 

„Vegna þess að á hverri tönn eru fimm hliðar og burstinn hreinsar bara þrjár. Á allar tennur safnast bakteríuskán sem veldur bæði skemmdum og tannholdsbólgu. Mest safnast af henni þar sem hún fær að vera í friðisem meðal annars er á milli tannnanna og líka niðri við tannhold. Ef öll tönnin er ekki vel hreinsuð, eins og þessar sænsku rannsóknir hafa sýnt, þá er fólk ósköp einfaldlega útsett fyrir vandamálum þar sem hreinsun er ábótavant.“

Tannlæknar hvika hvergi

Vilhelm ítrekar líka að Bandarísku tannlæknasamtökin hafi ekki breytt sinni afstöðu til tannþráðar. Og það hefur Tannlæknafélag Íslands heldur ekki gert, samkvæmt Ástu Óskarsdóttur sem segist hér eftir sem hingað til munu ráðleggja fólki sem vill hugsa vel um tennurnar að innbyrða sem minnst af sykri, þrífa tennurnar tvisvar á dag, bursta alla fleti og nota tannþráð þannig að vel sé þrifið á milli jaxlanna líka.

„Tannlæknar á Íslandi eru alls ekki að fara að breyta neinum ráðleggingum sínum á daglegum grunni til sinna sjúklinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×