Innlent

Landlæknir vill hækka virðisaukaskatt á sykraðan mat

Ásgeir Erlendsson skrifar
Í upphafi ársins 2015 voru vörugjöld á sykruðum mat felld niður hér á landi en á sama tíma var virðisaukaskattur á mat og þar með sælgæti hækkaður úr sjö prósentum í ellefu. Í kjölfar þeirra breytinga skrifuðu sérfræðingar Landlæknisembættisins í lýðheilsu umsögn við frumvarpið þar sem embættið taldi ekki farsælt að lækka álögur á óhollustu eins og gosdrykki og sælgæti þar sem það gæti haft í för með sér aukna neyslu á þessum vörum. Hólmfríður Þorgeirsdóttir, var önnur þeirra sem, skrifaði umsögnina þá og hún telur nauðsynlegt að sykraðar matvörur verði færðar í hærra virðisaukaskattþrep. Sykraðar matvörur ættu því að bera 24% virðisaukaskatt í stað 11% sem nú er.

„Niðurstöður rannsókna hefur sýnt að álögur á gosdrykki getur verið árángusrík leið til að draga úr neyslu þeirra.“

Breytingarnar á sínum tíma hafa verið í andstöðu við Landlæknisembættið og vinnuhóp á vegum Velferðarráðuneytisins. Hún vill að stjórnvöld hlusti betur á sérfræðinga í lýðheilsumálum þegar skattlagning á matvæli er ákveðin.

„Auðvitað vildum við láta hlusta meira á það sem við erum að leggja til. Það sem niðurstöður rannsókna hafa sýnt að þetta geti bætt heilsu. Þannig gætu stjórnvöld skapað aðstæður til að stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum. Svo ég tala nú ekki um að það sem kæmi inn væri notað til að lækka álögur á hollustu eins og ávexti og grænmeti.“

Reynsla annarra landa sýni að aukin skattheimta á sykruð matvæli skili árangri.

„Í Mexíkó var lagður 10% skattur á sykraða gosdrykki og fyrsta árið sem hann var lagður á drógst sala þeirra saman um 12%.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×