Innlent

Mikil skekkja í framfærslu námsmanna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Í að minnsta kosti sjö löndum voru lánin lægri en framfærsluþörf, segir í svari Illuga Gunnarssonar.
Í að minnsta kosti sjö löndum voru lánin lægri en framfærsluþörf, segir í svari Illuga Gunnarssonar. vísir/gva
Lán til íslenskra námsmanna í tuttugu fjölmennustu löndum meðal umsækjenda LÍN voru að meðaltali um tuttugu prósent umfram framfærsluþörf við gerð úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2014 til 2015. Lán voru allt að 63,7 prósent umfram þörf í Austur-Evrópu, en einungis 3,1 prósent í Kaupmannahöfn, og 1,1 prósent í Noregi. Þetta kemur fram í svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um breytta framfærslu námsmanna erlendis.

Fram kemur í svarinu að meginskýringin á þessari skekkju sé sú að þegar námslán voru hækkuð um tuttugu prósent í kjölfar efnahagshrunsins hafi sú hækkun náð til allra námsmanna, einnig þeirra sem stunduðu nám erlendis. Þetta var gert þrátt fyrir að framfærsluviðmið LÍN væru í mynt viðkomandi lands. Gengisfall krónunnar kom því ekki með sama hætti við námsmenn erlendis og hér á landi.

Ljóst var að verulega hefði hallað á námsmenn á Íslandi í lánveitingum sjóðsins. Ákveðið var því að leiðrétta skekkjuna erlendis í áföngum. Framfærsla var lækkuð um allt að tíu prósent í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2015 til 2016, allt að tuttugu prósent í úthlutunarreglum ársins 2016 til 2017 og verður lækkuð nú í vetur þar sem þörf er á. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×