Innlent

Skagfirðingar æfir yfir rammaáætlun

Sveinn Arnarsson skrifar
Margir virðast mjög óánægðir með drög að skýrslu þriðja áfanga rammaáætlunar.
Margir virðast mjög óánægðir með drög að skýrslu þriðja áfanga rammaáætlunar. fréttablaðið/vilhelm
Meirihluti byggðaráðs Skagafjarðar telur að í drögum að lokaskýrslu verkefnastjórnar um 3. áfanga rammaáætlunar sé lögum ekki fylgt, rangt farið með staðreyndir, ekki hlustað á raddir heimamanna og að málið sé ekki rannsakað til hlítar.

„Sveitarfélagið Skagafjörður krefst þess að þau virkjunaráform í Skagafirði sem sett hafa verið í verndarflokk verði í það minnsta flutt í biðflokk enda er þeirri greiningarvinnu sem liggja á til grundvallar ábótavant,“ segir í bókun sem Stefán Vagn Stefánsson og Sigríður Svavarsdóttir samþykktu.

Bjarni Jónsson, minnihlutamaður í VG, og Sigurjón Þórðarson áheyrnarfulltrúi voru andvígir og segja þeir inntak kvartana meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks snúa að því að ekki hafi verið haft samráð við heimamenn.

„Það er verulega öfugsnúið og í raun furðulegt í ljósi þess að meirihlutinn hefur ekki haft fyrir því að hafa samráð við fulltrúa minnihluta um þá umsögn sem nú birtist og hefur á sér fremur ólundarlegt yfirbragð,“ bókuðu Bjarni og Sigurjón.

Meirihlutinn telur að ekki hafi verið skoðuð hagræn áhrif virkjana í Skagafirði á heimabyggð. Aðeins voru skoðuð áhrif á náttúru og menningarminjar og aðra nýtingarmöguleika en orkuöflun.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Skagafjarðar
„Þá er verulega ámælisvert að mat fyrrgreindra faghópa á áhrifum mögulegra virkjana í Skagafirði virðist í mörgum tilfellum ekki stutt rökum heldur byggt á einhvers konar huglægu mati,“ segir meirihlutinn sem tekur undir orð Orkustofnunar að rökum sé slengt fram án þess að fótur sé fyrir þeim.

Bent er á að meirihluti íbúa Skagafjarðar og einnig þeirra sem búa í námunda við fyrirhugaða virkjunarkosti í Skagafirði vilji virkja og nýta raforku í heimabyggð.

„Ekki virðist eiga að hlusta á þessi sjónarmið meginþorra íbúa þegar tekin er ákvörðun um að setja virkjanakosti í Skagafirði í verndarflokk. Það er ólíðandi með öllu að íbúar fái ekkert um framtíð sína eða síns svæðis að segja,“ segir í harðorðri bókun byggðaráðs. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×