Innlent

Rakvélablaðaþjófarnir dæmdir til fangelsisvistar

Birgir Olgeirsson skrifar
Mennirnir höfðu setið óslitið í gæsluvarðhaldi frá 2. júní síðastliðnum.
Mennirnir höfðu setið óslitið í gæsluvarðhaldi frá 2. júní síðastliðnum. Vísir/Heiða
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn til fangelsisvistar fyrir þjófnaðahrinu á höfuðborgarsvæðinu í maí síðastliðnum. Mennirnir stálu meðal annars riffilsjónauka, gullhringjum, gullhálsmeni, gullhringi með demanti, fartölvu, Under Armour-skópari og skinnkraga. Verðmæti þessara muna er sagt um 1,5 milljónir króna.

Á dvalarstað þeirra í Hafnarfirði fundust fjöldi munu sem mennirnir annað hvort vissu, eða máttu vita að mati Héraðsdóms Reykjavíkur, að væru illa fengnir.

Þar á meðal 8 Didriksson úlpur, 330 stykki af Gillette-rakvélablöðum, 66° Norður vesti, peysur, hanskar og húfa, Regatta-jakki, Cross vesti og úlpa, 5 armbandsúr, sjónaukar, slípirokkur, rakvél, heyrnartól, vasahnífar, skífumál, 3D gleraugu, hleðslustöð, sexkantur, Canon-ljósmyndavél, 19 lyklakippur, ýmis ritföng, 39 tannburstar, 10 tannkremstúpur, rakakrem, 7 stykki af svitalyktareyðum, þrettán lyktarspjöld, fjögur rakakrem, fjórir sjampóbrúsar, 11 maskarar, 10 rakspíra, og 19 stykki af varalit svo dæmi séu tekin.

Mennirnir sendu alls fimm pakkasendingar úr landi sem Tollgæslunni tókst að endurheimta fjórar af þessum sendingum en sú fimmta var stöðvuð í Belgíu en hún innihélt 15 kíló af rakvélablöðum samkvæmt skoðun yfirvalda í Belgíu.

Í sendingunum voru ekki aðeins rakvélablöð heldur einnig loðkápa og loðkragi frá Feldi, gullhringir frá Gullkistunni og fatnaður frá 66° Norður, DidrikssonZO-ON.

Af rakvélablöðunum má nefna að í sendingunum mátti finna alls 6.823 rakvélablöð.

Mennirnir játuðu báðir brotin en annar þeirra var dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar en hinn til fimm mánaða fangelsisvistar. Dómurinn var kveðinn upp á föstudag en frá refsingu dregst í báðum tilfellum frá óslitið gæsluvarðhald frá 2. júní 2016. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×