Innlent

Bátaskýli brunnu til kaldra kola við Meðalfellsvatn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikinn reyk lagði frá bátaskýlunum.
Mikinn reyk lagði frá bátaskýlunum. mynd/sigurþór gíslason
Nokkur bátaskýli við Meðalfellsvatn í Kjós brunnu til kaldra kola í morgun en Sigurþór Gíslason bóndi á Meðalfelli varð var við eldinn rétt fyrir klukkan 11 í morgun.

„Við vorum í einhverri kílómeters fjarlægð þegar við sáum reyk þarna og þegar við komum að þessu þá reykur út undan þakinu og út um gluggann svo bara skömmu síðar er þetta bara orðið alelda,“ segir Sigurþór í samtali við Vísi.

Um var að ræða lengju af bátaskýlum og telur Sigurþór að um sjö einingar hafi verið í lengjunni. Hann segir að það hafi verið bátar í flestum skýlunum og ýmislegt annað dót en skýlin tilheyra nokkrum sumarhúsum við Meðalfellsvatn. Sigurþór vill ekki leggja mat á hversu mikið tjónið er en gera má ráð fyrri að það sé þó nokkuð, ekki síst ef bátar hafa verið í flestum skýlunum.

„Ég tók þarna tímann frá því að ég hringdi í slökkviliðið og þar til skýlin voru bara brunnin til grunna og það var svona rúmur klukkutími sem þetta tók,“ segir Sigurþór. Slökkvistarfið snerist því mest um það að verja aðra lengju af skýlum sem var við hliðina á þeirra sem varð eldinum að bráð og tókst það.

„Við vorum þarna með dælu úr sveitinni og svo haugsugu sem við fylltum af vatni. Svo kom auðvitað slökkviliðið og við vorum eiginlega bara að vinna í því að bjarga hinum skýlunum því lengjan brann bara einn tveir og tíu. Það var ekkert hægt að gera til að bjarga neinu þar,“ segir Sigurþór.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu tók slökkvistarf á vettvangi tæpan klukkutíma en tveir bílar fóru af stað. Öðrum þeirra var hins vegar snúið til baka þar sem varaslökkvilið úr sveitinni tók einnig þátt í slökkvistarfinu. Ekki liggur fyrir hver eldsupptök voru.

Bátaskýlin sem brunnu tilheyrðu sumarhúsum sem standa við Meðalfellsvatn.mynd/sigurþór gíslason
Slökkvistarfið fólst í því að verja bátaskýlin við hliðina á lengjunni sem kviknaði í.mynd/sigurþór gíslason
mynd/sigurþór gíslason



Fleiri fréttir

Sjá meira


×