Fljótasti maður allra tíma, Usain Bolt, segir að það sé engin trygging fyrir því að hann muni ekki keppa gegn svindlurum í Ríó. Hann segir frjálsíþróttir þó vera að taka skref í rétta átt.
Bolt er búinn að vinna þrjú gull tvo Ólympíuleika í röð og ætlar að skrá sig rækilega í sögubækurnar með því að endurtaka leikinn þriðju leikana í röð. Þeir verða líka hans síðustu.
Bolt er ÓL-meistari í 100 og 200 metra hlaupi og hann er einnig í 4x100 metra hlaupalið Jamaíku sem hefur unnið tvo leika í röð.
„Það er ekkert öruggt í lífinu og því get ég ekki fullvissað mig um að allir í hlaupunum mínum séu hreinir,“ sagði Bolt á skrautlegum blaðamannafundi í gær þar sem hann var með brasilíska dansara meðal annars.
„Ég hugsa samt aldrei um það þegar ég er að keppa. Við erum á réttri leið samt og erum að losa okkur við skemmdu eplin. Við þurfum að fara í gegnum erfiða tíma áður en góðu tímarnir koma.“
Bolt: Erum að losa okkur við skemmdu eplin
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
