Enski boltinn

Það verður gaman að spila við Gylfa í fyrsta leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson með Gylfa Þór Sigurðssyni, Jóni Daða Böðvarssyni og Arnóri Ingva Traustasyni.
Jóhann Berg Guðmundsson með Gylfa Þór Sigurðssyni, Jóni Daða Böðvarssyni og Arnóri Ingva Traustasyni. Vísir/AFP
„Ég hef oft sagt að draumurinn sé að spila í ensku úrvalsdeildinni og nú er ég kominn þangað þannig að það er auðvitað hægt að segja að draumurinn sé að rætast,“ sagði landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson í samtali við Fréttablaðið í gær, skömmu eftir að fréttir bárust af því að hann væri búinn að semja við Burnley. Jóhann Berg segir að félagið og áhuginn sem það sýndi á að fá hann hafi heillað.

„Þetta var alltaf fyrsti kostur. Ég ákvað að stökkva á tækifærið og líst mjög vel á þetta. Þeir hafa verið að skoða mig frá því í desember. Eftir EM ákváðu þeir svo að keyra á þetta. Það verður gaman fyrir mig að spreyta mig í þessari deild,“ sagði Jóhann Berg sem vildi lítið tjá sig um áhuga annarra liða.

Jóhann Berg segist hlakka til að spila fyrir knattspyrnustjórann Sean Dyche sem þykir mjög fær í sínu starfi og hefur komið Burnley tvisvar upp í ensku úrvalsdeildina.

„Hann er skemmtilegur maður. Hann vill að sínir menn gefi 120% í allar æfingar og alla leiki. Mín fyrstu kynni af honum eru mjög jákvæð og ég er á því að hann geri mig að betri leikmanni,“ sagði Jóhann Berg sem mætir væntanlega samherja sínum úr íslenska landsliðinu, Gylfa Þór Sigurðssyni, þegar Burnley tekur á móti Swansea City í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar laugardaginn 13.?ágúst næstkomandi.

„Það verður gaman að spila við hann í fyrsta leik. Þeir mæta á Turf Moor og það verður ekki auðvelt fyrir þá,“ sagði Jóhann Berg en Burnley tapaði aðeins tveimur deildarleikjum á heimavelli á síðasta tímabili. ingvithor@365.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×