„Það er seinkun á þessu og lítil sem engin vinna í gangi og ég sit með fangaverði sem ekkert hafa fyrir stafni,“ segir Páll Winkel í samtali við Vísi.

„Þetta er mjög bagalegt og setur skipulag okkar úr skorðum. Framundan er nefnilega flókin vinna þar sem við munum boða marga til afplánunar og vinna á biðlistanum. Því liggur á að klára verkið.“
Þarna vinna rúmlega 20 fangaverðir en hluti þeirra er í sumarfríi. Það eru eins margir í fríum og mögulegt er að sögn Páls, sem reynir með því móti að draga úr tjóninu.

Öryggiskerfin eru ekki tilbúin og á meðan svo er verður allt í pattstöðu. Okkur liggur á að byrja á að vinna á boðunarlista í fangelsin,“ segir Páll.
Sá aðili sem hefur yfirumsjá með verkinu er Framkvæmdasýsla ríkisins. Þar er forstjóri Halldóra Vífilsdóttir. Vísi tókst ekki að ná í hana í morgun.
Uppfært 13:00
Vísir náði nú rétt í þessu tali af Halldóru og hún segir það rétt að lokafrágangur hafi dregist, þetta gangi ágætlega, hafi gengið ágætlega í sumar en nú sé verið að vinna við lokafrágang á öryggiskerfi.
„En, það er kannski lóðin, sem átti að vera tilbúin í lok maí, en það hefur aðeins dregist. Hefur gengið ágætlega en það hefur ekki dugað til. Það hafa verið gerðar athugasemdir, og úttekt á lóð hefur farið fram og það er verið að bregðast við því. Gengið hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir en þetta er á lokametrunum.“
Halldóra segir það annarra að svara fyrir um það nákvæmlega hvenær taka megi fangelsið í gagnið en í byrjun ágúst sér hún fyrir sér að hefja megi þjálfun starfsmanna á öryggiskerfinu. En verkið hafi verið unnið í ágætu samstarfi við fangelsismálastofnun.