Innlent

Bjarni Ben: „Eins og það sé eitthvað lögmál að þingið og vinnumarkaðurinn séu í sífelldri baráttu“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Vísir
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það ástand sem hefur verið viðvarandi síðastliðin ár sem veldur óróa í þinginu ekki hollt eða gott til lengri tíma. Bjarni er gestur Páls Magnússonar á Sprengisandi í dag.

„Það getur verið vísbending um að frekara ójafnvægis sé að vænta.“

Bjarni gerði að umtalsefni sínu samskipti vinnumarkaðarins og þingsins en eins og landsmenn þekkja hafa fjölmargar stéttir talið nauðsynlegt að hefja verkfallsaðgerðir á kjörtímabilinu. Það hefur valdið röskun í þjóðfélaginu. Nú síðast flugumferðarstjórar en Alþingi setti lög á aðgerðir þeirra í sumar. 

„Vinnumarkaðurinn verður að vera stöðugur og kröftugur,“ segir Bjarni. Hann telur að gott samtal verði að vera á milli þings og vinnumarkaðar.

„Það er eins og það sé eitthvað lögmál að þingið og vinnumarkaðurinn séu í sífelldri baráttu.“

Skortir heildarlínu innan verkalýðshreyfingarinnar

Bjarni segir að innan verkalýðshreyfingarinnar séu margir héraðshöfðingjar sem tali mjög ólíku máli.

„Það skortir á að það sé einhver heildarlína. Ég er ekkert að segja að það eigi ekki við um atvinnurekendahliðina, þar eru líka ólík sjónarmið.“ Hann segir ekki hafa verið auðvelt að sjá atvinnurekendahreyfinguna klofna.

Þá gerði Bjarni fjölmiðlaumhverfið á Íslandi að sérstöku umtalsefni sínu.

„Mér finnst umhverfi fjölmiðla á Íslandi ekki vera nægilega gott. Mér sýnist að allir fjölmiðlar hér séu meira og minna að ströggla,“ segir Bjarni. Hann nefndi það til að mynd að Ríkisútvarpið hafi verið mikið í fjölmiðlum undanfarin ár og kvarta yfir því að það vanti meira fjármagn til stofnunarinnar.

„Það skiptir máli að það aðhald sem fjölmiðlarnir þurfa og eiga að geta veitt sé unnin af burðugum aðilum þannig að menn geti vandað vel til verka og laðað til sín hæft fólk. Þeir séu ekki stanslaust í einhverjum fjárhagslegum kröggum eða erfiðleikum. Þessar stoðir, vinnumarkaðurinn, þingið og fjölmiðlarnir, ég myndi gjarnan vilja sjá þessar stoðir standa tryggari.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×