Innlent

Fótboltastrákarnir okkar hafa myndað snjóplógsáhrif

Jakob Bjarnar skrifar
Að vera þekktur fyrir þá hegðun sem Íslendingar hafa orðið frægir fyrir í fótboltanum er ómetanlegt.
Að vera þekktur fyrir þá hegðun sem Íslendingar hafa orðið frægir fyrir í fótboltanum er ómetanlegt.
Áhugi á Íslandi í tengslum við EM, sá er sýnir sig á Google trends, slagar hátt í þann áhuga sem birtist í tengslum við gosið í Eyjafjallajökli í apríl 2010. Þá var Ísland í kastljósinu, ekki endilega í svo jákvæðu ljósi því gosið setti flugsamgöngur í algjört uppnám. Ýmsir hugsuðu Íslandi þá þegjandi þörfina.

„Þetta er magnaður árangur,“ segir Hjörtur Smárason sem búsettur er úti í Danmörku en er sérfróður í kynningu landa og landsvæða; sérfræðingingur í alþjóðlegum viðskiptum.

Sé horft á meðfylgjandi mynd, sem sýnir áhuga fólks á Íslandi miðað við hversu oft „Iceland“ er slegið inn á leitarvélina Google, má sjá nokkra hnjúka. „Guð blessi Ísland,“ sagði Geir H. Haarde þá forsætisráðherra í október 2008 – fjármálakerfið var hrunið.

Tveir tindar og svo nokkrir hólar og jafnvel hnjúkar, sýna sig á þessu línuriti, sem gefur býsna glögga mynd af áhuga á Íslandi úti í hinum stóra heimi.
Í maí 2011 gaus í Grímsvötnum og heimsbyggðin öll var í viðbragsstöðu. Síðan þá hefur kúrfan, sem sýnir þennan áhuga á Íslandi verið að mjakast uppá við og virðist þurfa minna til að ýta línuritinu uppá við í seinni tíð; einn tindurinn eru fréttir af Panamaskjölunum, en fjölmiðlar um heim allan fjölluðu um Panamaskjölin og félagið Wintris.

Snjóplógasögur

Línuritið tekur síðan kipp uppá við og slagar hátt í gosið á Eyjafjallajökli áhuginn á Íslandi sem augljóslega tengist frækinni frammistöðu íslenska karlalandsliðsins á EM.

Hjörtur segir tímasetningu EM ákaflega heppilega eftir alla þá neikvæðu athygli sem Ísland fékk vegna Panamaskjalanna.
„Sú landkynning sem Ísland hefur fengið vegna fótboltans er með ólíkindum og erfitt að meta til fjár. Sögur sem þessa kalla ég snjóplóga - sögur sem ná athygli fólks og fjölmiðla víða um heim og ryðja brautina fyrir aðrar sögur frá landinu. Við höfum séð marga fjölmiðla birta greinar um þetta undarlega og merkilega land Ísland. Þetta vekur forvitni sem við getum nýtt okkur,“ segir Hjörtur.

Heppileg tímasetning eftir alla neikvæðu athyglina

Hjörtur segir að Íslandsstofu og ferðaþjónustunni hafi í raun tekist framúrskarandi vel til eftir eldgosið í Eyjafjallajökli.

Hjörtur segir athyglina sem Ísland hefur notið vegna EM algerlega ómetanlega.
„Og, einstakt að svo lítið land sem Ísland fái aftur svona stórt tækifæri til landkynningar, og það með jákvæðri sögu í þetta skiptið. Tímasetningin er líka einstaklega heppileg eftir alla þá neikvæðu umfjöllun sem Ísland hefur fengið vegna Panamaskjalanna og hegðunar íslenskra stjórnmálamanna,“ segir Hjörtur sem rýndi í stöðu mála, hvað varðar Ísland og kynningarmálin, eftir þá háðung.

„Við skulum vona að þessi árangur og jákvæða athygli sem landsliðið og ekki síst stuðningsliðið hefur fengið vegna áræðni, liðsheildar, prúðmennsku og íþróttamannslegrar hegðunar verði þingmönnum og landsmönnum öllum innblástur. Að vera þekktur fyrir þá hegðun sem Íslendingar hafa orðið frægir fyrir í fótboltanum er ómetanlegt.“


Tengdar fréttir

Málið er að valda Íslandi stórfelldu tjóni

Sérfræðingur í alþjóðlegum viðskiptum segir blasa við að fréttir af aflandsreikningi Sigmundar Davíðs hafi þegar valdið Íslandi stórfelldu viðskiptalegu tjóni.

Fjölmiðlar flytji ekki hræðsluáróður

Íslandsstofa leggur mikla áherslu á að erlendir ferðamenn hætti ekki við að koma til Íslands vegna eldgossins í Holuhrauni. Æsifréttamennska í tengslum við gosið sé ekki heppileg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×