Enski boltinn

Gríðarleg ferðalög framundan hjá ensku liðunum en eitt lið ferðast langmest

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ensku liðin eru komin á fullt í að undirbúa sig fyrir komandi tímabil en enska úrvalsdeildin fer aftur af stað laugardaginn 13. ágúst næstkomandi.

Líkt og venjan er þá fara flest ensku úrvalsdeildarliðinu í langar keppnisferðir fyrir tímabilið og þau stærstu fara oft til Asíu eða Ameríku.

Liðin geta verið að hagnast mikið á þessum æfingaferðum sínum og þess vegna eru þær góðar fyrir gjaldkerann en geta oft tekið á fyrir leikmennina sjálfa sem eru náttúrulega að passa upp á það að koma sem best undirbúnir inn í mótið.

BBC hefur tekið öll þessi ferðalög saman og komist að því að liðin tuttugu sem skipa ensku úrvalsdeildina á komandi tímabili munu ferðast samtals 172.413 mílur eða yfir 277 þúsund kílómetra í aðdraganda mótsins.

Ekkert lið kemst þó með tærnar þar sem Tottenham hefur hælana þegar kemur að ferðlögum í sumar. Liðsmenn Tottenham munu ferðast 22.468 mílur eða rúmlega 36 þúsund kílómetra en innifalið er ferð liðsins til Ástralíu.

Það er aftur á móti Watford sem ferðast minnst eða "aðeins" 1.632 mílur eða 2.626 kílómetra. Það er aðeins sjö prósent af ferðalögum Tottenham-manna.

Félögin tuttugu fara alls til tuttugu landa en flestir leikjanna fara fram í Bandaríkjunum eða sautján þeirra. Ellefu leikir verða spilaðir í Austurríki.

Það er hægt að sjá nánari útlistun BBC-manna á ferðalögum ensku liðanna með því að smella hér en hér fyrir neðan er listinn yfir hvaða lið ferðast mest fram að fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.



Lengstu ferðalög liðanna í ensku úrvalsdeildinni fyrir tímabilið:

1. Tottenham - 22.468 mílur eða 36.159 kílómetrar

2. Chelsea - 14.345  mílur eða 23.086 kílómetrar

3. Liverpool - 12.625  mílur eða 20.318 kílómetrar

4. West Ham - 12.590 mílur eða 20.262 kílómetrar

5. Leicester City - 12.415  mílur eða 19.980 kílómetrar

6. Arsenal - 12.143 mílur eða 19.542 kílómetrar

7. Manchester City - 12.071  mílur eða 19.426 kílómetrar

8. Manchester United - 11.442 mílur eða 18.414 kílómetrar

9. Crystal Palace - 10.939  mílur eða 17.605 kílómetrar

10. Stoke City - 9.624  mílur eða 15.488 kílómetrar

11. Swansea City - 8.192 mílur eða 13.184 kílómetrar

12. Bournemouth - 8.134 mílur eða 13.090 kílómetrar

13. Southampton - 8.071  mílur eða 12.989 kílómetrar

14. Middlesbrough - 4.750  mílur eða 7.644 kílómetrar

15. West Brom - 3.544 mílur eða 5.704 kílómetrar

16. Everton - 1.906  mílur eða 3.067 kílómetrar

17. Sunderland - 1.900  mílur eða 3.058 kílómetrar

18. Hull City - 1.862 mílur eða 2.997 kílómetrar

19. Burnley - 1.740  mílur eða 2.800 kílómetrar

20. Watford - 1.632 mílur eða 2.626 kílómetrar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×