Innlent

Sér tormerki á sambúð á hjúkrunarheimilum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Um 42 prósent karla og 28 prósent kvenna flytja inn á hjúkrunarheimili fyrir 80 ára aldur að sögn Unnar V. Ingólfsdóttur. Myndin er af Hrafnistu.
Um 42 prósent karla og 28 prósent kvenna flytja inn á hjúkrunarheimili fyrir 80 ára aldur að sögn Unnar V. Ingólfsdóttur. Myndin er af Hrafnistu. Fréttblaðið/pjétur
Framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar segir frumvarp til laga, sem ætlað er að tryggja eldri borgurum áframhaldandi sambúð þótt annar makinn þurfi að dvelja á stofnun, vekja upp ótal spurningar.

Um er að ræða frumvarp frá þremur þingmönnum Vinstri grænna sem vilja festa í lög að sá sem dvelur til langframa á stofnun fyrir aldraða eigi kost á því vera samvistum við maka sinn þar.

„Sá réttur er ekki tryggður nú og því geta öldruð hjón eða sambýlisfólk þurft að slíta samvistum gegn vilja sínum þegar svo er komið fyrir öðru þeirra að langtímadvöl á stofnun fyrir aldraða er nauðsynleg. Aðskilnaðurinn getur reynst þeim og aðstandendum þungbær og því mikið hagsmunamál aldraðra að tryggja rétt sinn til áfram­haldandi sambúðar,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Unnur V. Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar, segir í umsögn, sem bæjarráðið þar samþykkti, að frumvarpið feli í sér mikilvægt mannréttindasjónarmið.

„En leiðin sem lögð er til með búsetu þess maka/sambúðaraðila sem hressari er á hjúkrunarheimili vekur óhjákvæmilega ótal spurningar um hversu heppilegt slíkt form er,“ segir Unnur sem einnig kveður aðlögunartímann fram til 1. janúar 2018 vera of stuttan vegna fjölmargra hindrana sem ryðja þurfi úr vegi.

Unnur segir viðvarandi skort á hjúkrunarrýmum og rekstrarvanda hjúkrunarheimila ekki gefa tilefni til breytinganna sem lagðar eru til nema unnið sé á þeim vanda.

„Fyrirkomulag búsetu maka á hjúkrunarheimili þarf einnig að vera með þeim hætti að tryggt sé að það íþyngi ekki þeim sem ekki er í þörf fyrir þjónustu hjúkrunarheimilisins. Tryggt þarf einnig að vera að hann hafi í einhver hús að venda falli veikari makinn frá en sé ekki tilneyddur til að búa áfram á hjúkrunarheimili,“ segir í umsögn Unnar og þar með Mosfellsbæjar.

Þá bendir Unnur á að koma þurfi í veg fyrir að sá makinn sem betur er á sig kominn njóti þjónustu umfram sínar þarfir því það geti skert færni viðkomandi, stuðlað að félagslegri einangrun og staðið í vegi fyrir því að þeir sem séu í þörf fyrir þjónustu njóti hennar. Fleiri karlar en konur flytji inn á hjúkrunarheimili fyrir 80 ára aldur.

„Það eru því meiri líkur á því að konur séu í hópi þeirra einstaklinga sem velja að flytja með maka sínum á hjúkrunarheimili ef frumvarpið yrði að lögum,“ segir Unnur. Af reynslu af tilraunaverkefni á Hrafnistu í Kópavogi hafi stjórnendur ekki talið fyrirkomulagið heppilegt.

„Ástæða var talin til að hafa áhyggjur af maka sem flytti inn á heimilið án þess að vera í þörf fyrir svo viðamikla umönnun sem þar er í boði. Beindust þær að því að makinn fengi ekki næga hvíld og að aðstæður drægju úr færni hans og stuðlaði að félagslegri einangrun,“ segir í umsögninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×