Innlent

Sigurður Ingi segir Obamahjónin heillandi persónuleika

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sátu í gær leiðtogafund Norðurlandanna og Bandaríkjanna í Hvíta húsinu í boði Baracks Obama forseta Bandaríkjanna. Sigurður Ingi segir mikinn ávinning af fundinum, og að Obama hjónin séu heillandi persónuleikar.

Sigurður Ingi í pontu Hvíta hússins.vísir/epa
Á fundinum var rætt um samvinnu Bandaríkjanna og Norðurlandanna á ýmsum sviðum. Átti Sigurður Ingi stutt einkasamtal við Barack Obama og notaði tækifærið til að bjóða honum í heimsókn til Íslands, en enginn sitjandi Bandaríkjaforseti hefur komið sérstaklega hingað til lands í opinbera heimsókn. 

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fundaði með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem hún lagði áherslu á jafnréttismál og aukna samvinnu á alþjóðavettvangi. Segir hún fundinn hafa verið góðan og uppbyggilegan.

Í gærkvöldi var svo sérstakur viðhafnarkvöldverður í hvíta húsinu í tilefni leiðtogafundarins. Engu var til sparað og mættu þjóðhöfðingjarnir í sínu fínasta pússi. Um 400 manns voru á gestalistanum, meðal annars gamanleikarinn Will Ferrel og Viveca Paulin, sænsk eiginkona hans auk spjallþáttastjórnandans David Letterman. Sigurður Ingi þótti fara á kostum í skálaræðu sinni en þar benti hann á að Bandaríkjamenn væru þúsund sinnum fleiri en Íslendingar. Þetta er aðeins í tólfta sinn sem slíkur viðhafnarkvöldverður er haldin í forsetatíð Baracks Obama. 

„Heiður okkar var auðvitað mjög mikill að fá að taka þátt í þessu og mikil upplifun og lífsreynsla. Ég held að það muni gagnast okkur og okkar samfélagi í samskiptunum í framhaldinu,“ segir Sigurður Ingi. 

Þá segir hann Obamahjónin hafa verið höfðinglega gestgjafa.

„Þau eru mjög heillandi persónuleikar. Draga að sér og útgeilsunin frá þeim er í það minnsta jafn mikil í nánd og hún virkar í fjölmiðlum. Það var mjög gaman að eiga samtal við þau.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×