Innlent

Nýtt fjölbýlishús á Siglufirði

Sveinn Arnarsson skrifar
Gamli gagnfræðaskólinn á Siglufirði er rautt og reisulegt hús, fremst á þessari mynd.
Gamli gagnfræðaskólinn á Siglufirði er rautt og reisulegt hús, fremst á þessari mynd. vísir/Vilhelm
Unnið er að miklum breytingum á gamla gagganum á Siglufirði. Þessi fornfræga bygging eftir húsameistara ríkisins mun hér eftir hýsa 15 íbúðir. Er þetta í fyrsta skipti í áratugi sem hægt er að kaupa nýtt húsnæði á norðanverðum Tröllaskaga. Eigandi hússins segir það fagnaðarefni að hægt sé að bjóða nýtt húsnæði á Siglufirði.

„Við erum á algjörum byrjunarreit í söluferlinu en samt sem áður er fyrsta íbúðin seld strax sem kom okkur kannski nokkuð á óvart,“ segir Þröstur Þórhallsson, eigandi fyrirtækisins sem endurbyggir húsið. „Við sjáum fyrir okkur að með auknum umsvifum á Siglufirði þurfi þetta nýja íbúðarhúsnæði í bæinn.“

Gamli gagnfræðaskólinn á Siglufirði var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, og byggður á sjötta áratugnum. „Ég á rætur að rekja til bæjarins, er skírður í kirkjunni og var öll sumur þarna hjá ömmu og afa, þannig að þegar ég sá húsið auglýst rann mér blóðið til skyldunnar,“ segir Þröstur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×