Innlent

Konur eru líklegri en karlar til að hafa áhyggjur af fjárhagnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nærri þriðjungur landsmanna hefur áhyggjur af fjármálum heimilis síns. Konur hafa meiri áhyggjur en karlar. Þetta sýna niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis.

Breki Karlsson, hagfræðingur og forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, segir að niðurstöðurnar rími við niðurstöður rannsókna hér heima og erlendis. Það bendi til þess að mikil ástæða sé til að fara í átak til að efla fjármálalæsi, og þá sérstaklega kvenna. „Samkvæmt mínum rannsóknum og reyndar líka erlendum rannsóknum þá eru konur yfirleitt í meiri áhættu þegar kemur að fjármálum,“ segir Breki. Víða séu átaksverkefni til að hjálpa konum sérstaklega.

Breki Karlsson
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar segjast 29 prósent hafa áhyggjur af fjármálum heimilis síns, 66 prósent svara spurningunni neitandi, 3 prósent eru óákveðin og 2 prósent svara ekki. Sé einungis horft til þeirra sem afstöðu taka segjast 30 prósent hafa áhyggjur en 70 prósent segjast ekki hafa áhyggjur. Sé horft til þeirra karla sem afstöðu taka segjast 25 prósent hafa áhyggjur en 75 prósent hafa ekki áhyggjur. Sé horft til kvenna segjast 35 prósent hafa áhyggjur en 65 prósent segjast ekki hafa áhyggjur.

„Það er kannski ekkert óeðlilegt að vera með áhyggjur af fjármálum. Það er alltaf einhver óvissa. Vandamálið er fyrst þegar þær verða íþyngjandi,“ segir Breki. Hann segir rannsóknir benda til þess að staða kvenna í fjármálum sé yfirleitt verri en staða karla. Í könnun hans frá 2014 hafi komið fram að 30 prósent kvenna ættu ekki nægan varasjóð til þess að geta lifað í meira en mánuð, en einungis 21 prósent karla. Þá hafi komið fram að 42 prósent kvenna hafa tekið lán á undanförnum tólf mánuðum til að ná endum saman og 34 prósent karla. „Staða kvenna er verri. Þetta er ekki einskorðað við Ísland heldur er þetta alþjóðlegt,“ segir Breki.

Hringt var í 1.161 þar til náðist í 797 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 2. og 3. maí. Svarhlutfall var 68,6 prósent. Spurt var: Hefur þú áhyggjur af fjármálum heimilis þíns? Alls tóku 95 prósent í afstöðu til spurningarinnar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 9. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×