Innlent

Ebru Umar í farbanni: Hollenski blaðamaðurinn þakkar fyrir stuðninginn

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Umar í dag þegar henni var sleppt úr haldi.
Umar í dag þegar henni var sleppt úr haldi. Vísir/EPA
Ebru Umar, hollenskur blaðamaður, var handtekin í Tyrklandi eftir að hafa gagnrýnt Recep Tayyip Erdogan, forseta landsins, á Twitter. Umar skrifaði pistil í hollenska dagblaðið Metro þar sem hún gagnrýndi Erdogan. Greint er frá málinu á BBC og ABC.

Á laugardagskvöld tísti hún því að lögreglan væri við dyrnar hjá henni. Hún var færð til yfirheyrslu og höfð í haldi. Henni var sleppt í dag en er í farbanni og því meinað að yfirgefa Tyrkland. Lögmenn hennar eru að vinna í að fá banninu aflétt. Þangað til þarf blaðamaðurinn að koma tvisvar í viku á lögreglustöðina og láta vita af sér. Hún telur að yfirvöld fylgist með símanum sínum. 

Stuðningur á samfélagsmiðlum

Í síðustu viku hvatti tyrkneska ræðisskrifstofan í Rotterdam Tyrkja í Hollandi til að tilkynna móðganir í garð landsins eða forseta þess til yfirvalda. Síðar var hvatningin dregin tilbaka en hún var gagnrýnd harðlega af Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, og af hollenskum þingmönnum. Umar gagnrýndi fyrirmælin sjálf í Metro. Í greininni kallaði Umar Erdogan einræðisherra.

Rutte hefur verið í sambandi við Umar síðan hún var handtekin. Talsmaður utanríkisráðuneytis Hollendinga sagði í samtali við fjölmiðla í dag: „Við erum meðvituð um ástandið og fylgjumst náið með því sem er í gangi. Við erum í sambandi við hana.“

Myllumerkið #freeebru tók að birtast á hollenskum samfélagsmiðlum í dag þar sem pólitíkusar og fréttaskýrendur kölluðu eftir frelsi blaðamannsins.

Erdogan er þekktur fyrir að þola illa gagnrýni og háð í sinn garð og er ekki hræddur við að grípa til lagalegra aðgerða móðgist hann. Síðan 2014 hafa 1800 blaðamenn verið saksóttir fyrir að hafa móðgað Erdogan. Í síðustu viku leyfði Þýskaland að þýskur sjónvarpsmaður Jan Moehmermann yrði saksóttur vegna óheflaðs ljóðs sem hann flutti um Erdogan. Í bæði Hollandi og Þýskalandi er hægt að refsa fólki fyrir það að móðga þjóðhöfðingja í öðru landi en bæði löndin hafa sagst vilja breyta lögunum svo athæfið sé ekki lengur refsivert.  

Umar hefur verið sleppt úr haldi sem fyrr segir og segist hún ekki hafa við að svara stuðningsskilaboðum. Hún þakkar sýndan stuðning á Twitter í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×