Enski boltinn

Özil: Við klúðruðum titilbaráttunni sjálfir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mesut Özil.
Mesut Özil. vísir/getty
Mesut Özil, miðjumaður Arsenal, kemur hreint fram í viðtali við Sky Sports og viðurkennir að leikmenn liðsins hafi hreinlega klúðrað titilbaráttunni sjálfir þetta tímabilið.

Arsenal hefur ekki orðið meistari síðan liðið gerði það án þess að tapa leik fyrir tólf árum síðan, en tímabilið í ár átti að vera þeirra að margra mati.

Nú eru Skytturnar ellefu stigum á eftir toppliði Leicester en eiga þó leik til góða. Það er fátt sem bendir til þess að lærisveinar Arsene Wenger lyfti bikarnum sem þeir gerðu síðast 2004.

„Þegar við lítum yfir leiktíðina hingað til verðum við að vera heiðarlegir og viðurkenna að við klúðruðum þessu sjálfir,“ segir Özil.

Ekki nóg með að fara illa að ráði sínu í deildinni þá féll liðið úr leik í enska bikarnum og Meistaradeildinni með fjögurra daga millibili þannig seinni helmingur tímabilsins hefur ekki verið liðinu góður.

„Við spiluðum ekki eins vel og við getum í þessum svokölluðu litlu leikjum. Manni er bara refsað fyrir slíkt í ensku úrvalsdeildinni,“ segir Özil.

„Við getum enn þá unnið deildina. Við verðum bara að vona að Leicester og Tottenham renni á vellinu og þá verðum við að nýta okkur það,“ segir Mesut Özil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×